Pálmi reiður: „Illa innrætt og heimskt fólk“ - Þorsteinn: „Ekki fallegt af þér“

Pálmi reiður: „Illa innrætt og heimskt fólk“ - Þorsteinn: „Ekki fallegt af þér“

„Fyrirgefið mér orðbragðið, ég er ekki vanur að taka svona til orða um fólk en nú get ég ekki lengur haldið í mér enda held ég sé komin tími til að grípa til orðbragðs sem hæfir þeim og þeir skilja: Miðflokksmenn eru hálfvitar (með kannski einni undantekningu).“

Þetta sagði Pálmi Gestsson leikari í kringum miðnætti. Þá voru Miðflokksmenn rétt að byrja að hefja málþóf sitt sem stóð yfir þriðju nóttina í röð. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sleit þingfundi klukkan níu í morgun að lokinni sautján klukkustunda umræðu um þriðja orkupakkann. Málþóf Miðflokksmanna hefur staðið í 70 klukkustundir í heildina. Pálmi Gestsson sagði í færslu á Facebook:

Og kjósendur þeirra (Miðflokksins) hálfu verri, illa innrætt og heimskt fólk svo það sé sagt. Þetta er þyngra en tárum taki en nauðsynlegt að segja það. Þeir eru stórhættulegir þjóðinni.

Þingmaður Miðflokksmanna, Þorsteinn Sæmundsson var ósáttur við innlegg Pálma og svaraði:

„Mér þykir ekki fallegt af þér að tala með þessum hætti til meirihluta þjóðarinnar sem er á móti málinu sem nú er til umræðu á Alþingi. Get ekki tekið undir með þér að meirihluti þjóðarinnar sé undirmálsfólk.“ Þá bætti Þorsteinn við:

„Meirihluti þjóðarinnar deilir skoðun með okkur á þessu máli. Að okkar mati er málið hafið yfir flokkapólitík.“

Pálmi svaraði til baka: „Erum við ekki með lýðræðislega kjörið þing? 90% þingsins styður málið þannig að þið getið hætt að niðurlægja þing og þjóð með þessu bulli ykkar sem engin getur hlýtt á öðruvísi en fá aumingjahroll, því þetta þetta bull ykkar hver við annan kemur málinu efnislega ekkert við.“

Þá tók Stefán Einar Stefánsson blaðamaður á Morgunblaðinu þátt í umræðunum og skoraði á Pálma að draga orð sín til baka. Umræðan færi með þessu niður á afar lágt plan. Pálmi svaraði á móti að honum ofbyði framkoma Miðflokksmanna. Pálmi sagði að lokum:

„Mér finnst leitt að þurfa nota þessi orð og þau eru sterk, en ég gat bara ekki orða bundist. Stundum þarf að fara niður á plan þeirra sem umræðir því þeir virðast ekki skilja annað.“

Nýjast