Páll fékk 22 milljónir við starfslok: ólína reið: „stekkur eins og gammur yfir ólýsanlegan harm fólks sem misst hefur barnið“

Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sagði í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í gær að hann skildi reiði fólks varðandi samanburð á bótagreiðslu ríkisins vegna brots á jafnréttislögum annars vegar og dauða ungabarns vegna mistaka hins vegar. Bætti Páll við að þetta væri ofar hans skilningi. Ólína Kjerúlf gagnrýnir framgöngu Páls harðlega og segir að skömm hans verði lengi í minnum höfð.

Þar var Páll að vísa til þess að hjónin Sigríður Eyrún Friðriksdóttir og Karl Olgeirsson fengu fimm milljónir króna í bætur frá ríkinu vegna alvarlegra mistaka sem gerð voru á fæðingardeild Landspítalans sem varð til þess að barn þeirra lést við fæðingu. Hafa bæturnar verið settar í samhengi við það að Ólína fékk 20 milljónir í bætur, 11 milljónir eftir skatt vegna brots Þingvallanefndar á jafnréttislögum þegar ráðið var í stöðu þjóðgarðsvarðar.

Páll sagði að bætur Ólínu væri hneyksli. Ólína hefur nú svaraði fyrir sig á samfélagsmiðlum og deilir frétt Kjarnans þar sem kemur fram að Páll Magnússon fékk 22 milljónir króna í starfslokagreiðslu frá RÚV þegar hann hætti sem útvarpsstjóri.

Páll sagði upp störfum í desember árið 2013 og var með tólf mánaða uppsagnarfrest. Hann var með 1.220.777 krónur á mánuði. Miðað við það hefði hann átt að fá tæplega 15 milljónir króna. Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þáverandi mennta og menningarmálaráðherra greindi síðan frá því í svari til Karls Garðarssonar þingmanns Framsóknarflokksins að Páll hefði fengið 22.380.144 krón­ur við starfslok.

Ólína Þorvarðardóttir gagnrýnir harðlega framgöngu Páls sem og samanburðinn við hjónin sem missti barn sitt. Ólína segir:

„Svo himinhrópandi að tekur engu tali\" segir Páll Magnússon um skaðabótagreiðslu ríkisins til mín. Hann segir þær \"hneyksli\" sem kalli á lagabreytingu. Þetta segir maðurinn sem fyrir þremur árum fékk sjálfur 22 milljónir króna fyrir að hætta störfum hjá RÚV, eins og frægt varð (sjá tengil hér neðar). \"Himinhrópandi\" hlýtur sú upphæð að hafa verið svo notuð séu hans eigin orð í síðdegisútvarpi Bylgjunnar í gær.“

Þá segir Ólínu að Páll, sem sat í Þingvallanefnd beri ábyrgð á „hraksmánarlegu klúðri Þingvallanefndar sem kostaði ríkissjóð 11 milljónir í skaðabætur“ til Ólínu.

„Hann stekkur eins og gammur yfir ólýsanlegan harm fólks sem misst hefur barnið sitt og hlotið þar af miska (sem ríkið mætti sannarlega bæta betur en raun er á, en engir fjármunir fá þó nokkru sinni bætt). Þeim þunga og óbætanlega harmi stillir hann upp við hliðina á hans eigin klúðri sem leiddi til greiðslu skaðabóta til mín og reynir þar með að slá pólitíska keilu í einstaklega ósmekklegri tilraun til þess að breiða yfir sína eigin skömm.“

Þar vísar Ólína til starfslokasamnings Páls. Ólína heldur áfram:

„Hvorki hann né aðrir sem haldið hafa þessum samanburði á lofti að undanförnu tala um 60 mkr greiðslu úr ríkissjóði til Haraldar Johannesens fyrir að hætta sem ríkislögreglustjóri. Eða um 150 mkr sem Höskuldur Arionbankastjóri þáði fyrir að hætta sem bankastjóri. Nú eða um þær 22 milljónir sem Páll Magnússon sjálfur þáði þarna um árið fyrir að hætta sem útvarpsstjóri. Nei, nú er hann bara heilagur í framan þar sem hann heldur á lofti myndum af mér. Reynir þar með að lappa upp á pólitíska ásýnd og varpa frá sér sök og skömm sem lengi verður í minnum höfð.

Sannast hér hið fornkveðna að margur sér flísina í auga náungans en ekki bjálkann í sínu eigin. Páll Magnússon kastar grjóti úr glerhúsi.“