Öskur og átök við Vesturbæjarlaug: Barði í húddið og börnin stjörf – Glúmur sakaður um að dreifa þvagi

Öskur og átök við Vesturbæjarlaug: Barði í húddið og börnin stjörf – Glúmur sakaður um að dreifa þvagi

„Þessi dagur er dagur til að gleyma. Hef ekki tekið mér frí síðan 29. ágúst og leyfði mér því að sofa út á drungalegum sunnudegi. Vaknaði og hélt til dóttur minnar en ákvað á leiðinni að þrífa bílinn og losa drasl.“ Þetta segir Glúmur Baldvinsson sem var á húsbíl þar sem annar bíll sem hann á var í viðgerð. Hann ákvað að að stoppa á Olís á Granda og þrífa bílinn og fara síðan með dósir og gler í endurvinnslu og styrkja þannig Skátana. Glúmur segir að vandræðin hafi hafist þegar hann var að smúla bílinn. Glúmur lýsir atvikinu á þessa leið:

„Ekki er ég hálfnaður með verkið þegar eldri maður á reiðhjóli kemur askvaðandi og öskrandi: „Drullaðu þér í burtu!!!“

Mér var brugðið og gekk að manninum sem öskraði: „Hvað heitirðu?“ Hvað heitir þú? Spurði Glúmur á móti.

„Þú ert Glúmur er það ekki?“ spurði maðurinn.

Ég jánkaði forviða á meðan maðurinn öskraði yfir allt planið: „Þú ert að dreifa þvagi úr bílnum þínum“. Hann benti á vatnsflauminn undir bílnum eftir þvottinn.“

Glúmur kveðst á þessari stundu ekki vita hvort hann væri staddur í vöku eða draumi, á meðan karlinn lét dæluna ganga.  

„Mig langaði að rota hann en það má víst ekki, svo ég settist upp í bíl og forðaði mér með kallinn steytandi hnefum í baksýnisspeglinum.“

Næst lá leiðin í nágrenni við Vesturbæjarlaug til að koma dósunum í hendurnar á skátunum. Hann segir:

„Gekk erfiðlega að leggja svo stórum bíl svo ég var aðeins upp á stétt. Það er í lagi í 3 mínútur, hugsaði ég. En ó nei, heldur betur ekki. Glúmur segir að hann hafi gengið út með poka, en þá hafi komið tæplega fertugur maður og tvö börn sem voru á hjóli. Glúmur segir manninn hafa verið ósáttan við hvernig hann lagði bílnum og öskrað á hann:

„Fokkaðu þér í burtu helvítið þitt með hnefa á lofti.“

Ég trúði nú ekki að ég væri í raun vakandi þar til hann barði í húddið, börn hans stjörf við hlið hans, og öskraði aftur:

„Drullaðu þér eða ég hringi í Lögregluna.“

Ég gekk að honum og bað hann að róa sig en það var engu tauti við manninn komið. Hann tók upp símann og byrjaði að mynda bílinn.“

Glúmur kveðst þá hafa beðið hann að hinkra og í kaldhæðni spurt hvort hann mætti ekki vera með á myndinni. Hann hafi lagað á sér hárið og „tekið nokkrar póstur.“ Glúmur segir:

„Þá fyrst missti maðurinn vitið en ég orðinn hálf örmagna settist undir stýri og drullaði mér í burtu. Reyni að klára verkið á morgun ef Guð lofar,“ segir Glúmur og bætir við á öðrum stað: „En að lokum finnst mér að löggjafavaldið ætti að kveða upp úr með hvenær maður megi rota mann og hvenær ekki. Því ég læt þetta ekki yfir mig ganga í þriðja sinn. Allt er þegar þrennt er.“

Nýjast