Ósk Gabríella er látin: „Þakka fyrir all­ar fórn­irn­ar, öll bros­in, öll tár­in og alla hlýj­una“

Ósk Gabríella er látin: „Þakka fyrir all­ar fórn­irn­ar, öll bros­in, öll tár­in og alla hlýj­una“

Ósk Gabrí­ella Bergþórs­dótt­ir fædd­ist á Akra­nesi 1. sept­em­ber 1948. Hún lést eft­ir stutta bar­áttu við krabba­mein á sjúkra­hús­inu á Akra­nesi 11. janú­ar 2020. Ósk Gabríella gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún var einnig móðir Bergþórs Ólasonar þingmanns Miðflokksins.

Ósk gift­ist Óla Jóni Gunn­ars­syni, fv. bæj­ar­stjóra á af­mæl­is­dag­inn, 1. sept­em­ber 1973. Þau kynntist í Klúbbnum og voru saman í 50 ár, þar af gift í rúm 46 ár. Ósk og Óli eignuðust þrjú börn.

Ósk var virk í Lions-hreyf­ing­unni og á síðari árum í Soroptimistasambandi Íslands. Hún tók þátt í starfi Sjálf­stæðis­flokks­ins og gegndi þar ýms­um trúnaðar­störf­um. Bergþór Ólason minnist móður sinnar í minningargrein í Morgunblaðinu í dag. Bergþór segir:

„Hún var sjó­manns­dótt­ir og bræður henn­ar báðir voru sjó­menn. Hún fór í Hús­mæðraskól­ann Ósk á Ísaf­irði eft­ir út­skrift úr gagn­fræðaskóla. Ekki sér­stak­lega til að sinna heim­il­is­störf­um á síðari stig­um, held­ur til að eiga auðveld­ara með að fá pláss á sjó, sem kokk­ur,“ segir Bergþór og bætir við:

„Það stóð heima, á sjó­inn fór hún, með Guðjóni bróður sín­um, sem þá var skip­stjóri á Sig­urfara AK-95. Hún var á sjó í tvær síld­ar­vertíðir, sam­tals 17 mánuði.

Þetta var mamma.“

Ósk menntaði sig sem loftskeytamaður og kunni að morsa. Starfsferill á þeim vettvangi varð þó stuttur þar sem hún gaf sér tíma til að vera heima með elsta soninn Bergþór. Hann segir á öðrum stað í greininni:

„Mamma var póli­tísk. Hún gaf lítið fyr­ir yf­ir­borðsmennsku í stjórn­mál­um og sýnd­ar­mennska var sem eit­ur í bein­um henn­ar þegar kom að því að leggja mat á karakt­era stjórn­mál­anna. Hún var flokks­bund­in sjálf­stæðis­kona alla tíð og gegndi ýms­um trúnaðar­störf­um fyr­ir flokk­inn. Ég tel þó víst að hafi hún vikið frá van­an­um í síðustu kosn­ing­um til Alþing­is.“

Þá segir Bergþór að lokum:

Við leiðarlok vil ég þakka móður minni fyr­ir árin öll, all­ar sam­veru­stund­irn­ar, öll ráðin, all­ar skamm­irn­ar, all­ar fórn­irn­ar, öll bros­in, öll tár­in og alla hlýj­una. Ég vona að í líf­inu tak­ist mér að reyn­ast öðrum eins vel og hún reynd­ist mér.

Útför Óskar Gabrí­ellu fer fram frá Akra­nes­kirkju í dag, 20. janú­ar 2020, og hefst at­höfn­in klukk­an 13.

Nýjast