Orkuskiptin eru ekki „annað hvort eða“

Jón Björn Skúlason er gestur í 21 í kvöld:

Orkuskiptin eru ekki „annað hvort eða“

Jón Björn Skúlason, frkvstj. Íslenskrar NýOrku
Jón Björn Skúlason, frkvstj. Íslenskrar NýOrku

Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku, er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræðir hann orkuskipti í samgöngum, sem er ein af stærstu áskorununum í umhverfismálum. Orkuskiptin snúast fyrst og fremst um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, aðallega koldíoxíðs, eða Co2, með því að minnka notkun jarðefniseldsneytis, bensíns og dísilolíu.

Í því skyni að minnka notkun jarðefniseldsneytis hefur notkun rafbíla aukist, og fer staða þeirra stöðugt batnandi á heimsvísu. „Það gerist ansi hratt, þróunin frá 2011 til 2013, þá er gríðarleg breyting í viðhorfi bílaframleiðenda og við sjáum mikil framfaraskref í rafgeymum. Þessi litíum batterí sem eru núna allsráðandi á markaðnum, þau koma inn á markaðinn, líftími þeirra er miklu meiri, það er hægt að ná miklu meiri drægni út úr bílunum. Bílaframleiðendur finna lausn á því að bíllinn líti út eins og hefðbundinn bíll og uppfylli þær kröfur sem almenningur gerir til bíls yfirleitt. Vandamálið var náttúrulega ennþá ákveðin drægnimál, sem er kannski svolítið ennþá í umræðunni. Almennt kemur nokkuð fjölbreytt úrval af bílum á markaðinn, verðið er svona í lagi með ívilnunum, Norðmenn og Íslendingar taka þarna mikla forystu með því að vera með ívilnanir fyrir þessa bíla og eru raunverulega fyrsti stóri markaðurinn sem tekur virkilega við sér að kaupa inn bíla. Ísland er kannski þremur árum á eftir Noregi, þeir eru komnir lang lengst, það eru mestar ívilnanir þar.“

Jón Björn nefnir einnig metan. „Metan er eitthvað sem við erum að framleiða í dag uppi á sorphaugum, og mjög mikilvægt að brenna því. Nú er verið að fara að byggja upp gasgerðarstöð sem þrefaldar magn metans, ef ég man rétt, í umferð. Þetta er mjög mikilvægt, að við nýtum þetta metan. Á hvaða hátt við nýtum það er eitthvað sem við getum svo sem rökrætt, en það er talsvert úrval af metanbílum. Það komu upp á sínum tíma, það var mikið af breyttum bílum í umferð og sumir þeirra voru ekki breyttir á þann hátt sem hefði þurft að gera, og umræðan í samfélaginu var neikvæð um metanbíla. Einhvern veginn hefur gengið erfiðlega að komast yfir þennan hjalla. Það eru mjög margir bílaframleiðendur að framleiða metanbíla, það eru sömu ábyrgðir á metanbílum og öðrum bílum. Verðið á metan er hagstæðara en bensín og dísel, það er afsláttur af innflutningsgjöldum. Eiginlega hefur maður svolítið furðað sig á því af hverju metan hefur ekki náð betra flugi heldur en er í dag. En við vonum að með opnun gasgerðarstöðvarinnar að þá aukist umræðan á ný um möguleikana.“

Hann víkur því næst talinu að vetni. „Vetnið er komið á markað aftur og það er búið byggja tvær [vetnis] stöðvar og þriðja opnar innan skamms. Það er eins með það [og metanið] reyndar, það vantar fleiri innviði út á land, til þess að bílar geti farið víðar. Við horfum samt svolítið mikið á vetni fyrir stærri tæki. Rafbíllinn er frábær, þ.e.a.s. rafgeymabíllinn, í þessu snatti, og þú getur tekið rafbíl í kringum Reykjavík, sem er 150 kílómetrar, og fólk getur auðveldlega keyrt fram og til baka án þess að hafa áhyggjur af rafmagninu. Vetnið er þannig að þú ert með sama áfyllingartíma og metansins, það tekur bara þrjár mínútur að fylla bílinn. Nýjustu bílarnir eru að fara 600-700 kílómetra og nú er verið að tala um þúsund kílómetra drægni á þeim bílum, sem er sambærilegt við bensínbíla.“

Þegar kemur að orkuskiptunum segir Jón Björn að fjölbreytni muni gæta í stað þess að einhver einn orkugjafi muni öðlast yfirhöndina og að einhver annar lúti í gras. „Þannig að ég held að þetta er ekki annað hvort eða. Þegar við erum að ræða þetta þá hafa menn oft farið í svona flokka: „Við eigum öll að fara í rafgeymabíla,“ „við eigum öll að fara í þetta.“ Þetta verður ákveðin fjölbreytni í framtíðinni. Vetni hefur marga kosti fram yfir rafgeymabíla, rafmagnið er ódýrara, rafmagnið er nýtnara, rafgeymabíll er alltaf nýtnari en vetnisbíll. En það verður erfitt t.d. að knýja skipaflotann, knýja allar rútur, flutningabíla o.s.frv., á rafgeymum. Þar gæti vetni t.d. komið inn sem mjög góður kostur. Í bílaleigu hefur gengið erfiðlega að fá fólk til að taka inn rafgeymabíla og erlendir ferðamenn hafa ekki sótt mikið í að leigja þessa bíla.“

„Ég held að þeir sem ætli að segja að þessi eldsneytismarkaður verði einfaldari í framtíðinni, þeir hafa ekkert endilega rétt fyrir sér. Af því svo ertu með enn frekari útgáfur. Menn eru að skoða ammóníak, menn eru að skoða metanól, menn eru að skoða loftþrýstibíla. Það er ýmis flóra í gangi,“ bætir Jón Björn við.

Nánar er rætt við Jón Björn um orkuskiptin í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Nýjast