Ömurlegt að tilheyra starfsstétt sem er smánuð og kölluð afæta í kommentakerfunum

Nokkrir punktar um listamannalaun:
 
1) Fullt af fólki velur sér mikilvæg störf sem myndi ganga illa að lifa af á „opnum markaði.“ Hugsum okkur talmeinafræðinga, þroskaþjálfa eða sjúkraþjálfara. Þessir hópar vinna mikilvæg störf sem við höfum ákveðið, sem þjóð, að skipti máli að almenningur hafi aðgang að. Notendur þjónustunnar greiða (stundum) part af henni, hið opinbera greiðir part af henni og þar með geta talmeinafræðingarnir, þroskaþjálfarnir og sjúkraþjálfararnir starfað og fólk notið þjónustunnar. Það væri í sjálfu sér hægt að ímynda sér heim þar sem við segjum að ef þessar starfsstéttir geti ekki lifað af án stuðnings hins opinbera ætti fólkið að finna sér annað að gera. En það væri ekki góður heimur. Þá myndi í fyrsta lagi fækka mjög í þessum starfsstéttum og í öðru lagi yrði þjónusta þeirra margfalt dýrari og þeir sem ekki gætu keypt hana á því verði þyrftu að vera án hennar. Listamannalaun eru ekki frábrugðin þessu. Við sem þjóð höfum ákveðið að listir séu partur af siðmenningunni og þess vegna þurfi að styðja við þær. Við viljum ekki heim þar sem bara þeir sem njóta fjárhagslegs sjálfstæðis geta skapað bókmenntir og bara þeir sem geti leyft sér mikinn munað geta keypt þær.
 

2) Sumir tala um að tekjutengja þurfi listamannalaun. Mér finnst það dálítið kjánalegt - að ákveða að listamannalaun séu fátækrastyrkur og að enginn listamaður megi fara yfir meðallaun, því ef hann slysist til velgengni verði augljóslega að koma skerðingar á móti. EN - ég á líka erfitt að vera eitthvað æst á móti tekjutengingu, því ég geri mér grein fyrir því að tekjutenging myndi skipta fæsta máli. Fæstir sjálfstætt starfandi listamenn ná upp í lágmarkslaun. Það má eiginlega telja á fingrum sér þá sem ná upp í meðallaun - það er algjört ævintýri að ná því. Svo ég veit ekki alveg hvaða markmiði tekjutenging ætti að ná.

3) Nei, í alvöru, þið skiljið ekki hvað tekjurnar eru lágar. Ímyndum okkur algjöra metsölubók – toppinn á metsölulistum. Tíu þúsund eintök. Ef ég myndi selja tíu þúsund eintök af barnabók (ég er ekki með tölur á hreinu en ég held að það seljist ekki oft tíu þúsund eintök af barnabók – oftast eru færri eintök á bakvið mest seldu bók ársins) þá fengi ég sex milljónir fyrir. Í verktakagreiðslu. Það þýðir 500.000 á mánuði. Aftur – í verktakagreiðslu. Listamenn borga skatta eins og allir hinir, en þarna á líka eftir að borga öll launatengd gjöld. Það er ekkert inni í þessu. Enginn veikindaréttur, engin desemberuppbót, ekkert mótframlag vinnuveitenda í lífeyrissjóð – ekkert. Þetta er eins og að vera með um það bil 350 þúsund í venjuleg laun – fyrir skatt (í alvöru – þegar ég var launþegi trúði ég því aldrei alveg að munurinn á verktakagreiðslum og launagreiðslum væri svona mikill. Hinum megin við borðið get ég fullyrt að hann er það). Þetta eru tölurnar hjá rithöfundi sem nýtur svo mikillar velgengni að hann er ekki til. Flestar bækur seljast í miklu, miklu færri eintökum. 2000 eintök þykir bara ansi gott – það er partur af því að skrifa fyrir agnarsmátt málsvæði. Ég hugsa að mörgum þætti að þessi 10 þúsund eintaka höfundur ætti alls ekkert að sækja um listamannalaun, því hann njóti nú svo mikillar velgengni. Ég veit samt ekki um neinn sem finnst að 350 þúsund séu frábær laun. En þetta eru tölurnar. Listamannalaunin eru svo 407 þúsund í verktakagreiðslu, sem jafngildir svona 280 þúsund í launagreiðslu.

4) Stundum er talað um að eldri höfundar sem hafi „komið ferlinum af stað“ eigi að víkja af listanum fyrir yngri höfundum sem eru að byrja. Hvernig? Af hverju? Ef við ímyndum okkur fagurbókahöfund sem hefur gefið út vandað skáldverk annað hvert ár, sem selst í 1500-3000 eintökum, og fær starfslaun að jafnaði sex mánuði ársins, þá er viðkomandi höfundur SAMT lágtekjumanneskja. Viðkomandi hefur ekki náð að safna einhverjum sjóðum sem hægt er að lifa af frá fimmtugu og upp frá því. Það eru allir í sama helvítis harkinu.

5) Við tölum tungumál sem er í útrýmingarhættu. Þetta er óumdeilt, það eru fáir sem tala íslensku og erlend áhrif eru mikil. Ef íslenskan deyr út, sem hún er auðvitað daglega nálægt því að gera, glatast heill heimur. Við missum beina tengingu við hugarheim þeirra kynslóða sem hafa byggt þessa eyju. Börnin okkar geta ekki skilið bréf forfeðra sinna. Strengurinn rofnar. Það er einhvers virði að styðja sköpun á íslensku.

6) Fólk sem starfar við listir valdi vissulega að starfa við listir. Það hefur ástríðu fyrir listum og finnst að þær séu mikilvægar. Þetta fólk valdi að vinna ekki í banka, á hjúkrunarheimili eða við fiskvinnslu. Það er alveg rétt. En það þýðir samt ekki að listirnar séu ekki mikilvægar, eða að listamennirnir eigi að skammast sín fyrir að vilja geta framfleytt sér og börnunum sínum. Þroskaþjálfinn valdi líka sitt fag frekar en að vinna í banka. Hann á ekki að skammast sín fyrir að hið opinbera borgi launin hans.

7) Rannís borgar út alls konar styrki árið um kring. Styrki til verkefna, styrki til rannsókna, styrki til náms, styrki til íþróttastarfs – alls konar. Af því rétt eins og hið opinbera hefur ákveðið að talmeinafræðingar vinni mikilvæg störf hefur hið opinbera ákveðið að rannsóknir, íþróttastarf, barnamenning og allt hitt skipti máli. Listamannalaunin eru það eina sem veldur þessari umræðu. Og það er ömurlegt að tilheyra starfsstétt þar sem BESTA mögulega niðurstaða janúarmánaðar sé sú að vera smánaður og kallaður afæta í kommentakerfunum, fyrir það að hafa fengið lágan styrk gegn vinnuframlagi sem flestir eru sammála um að sé mikilvægt. Ástæðan fyrir því að þessu er slegið upp í fjölmiðlum er sú að listamenn hafa náð til þjóðarinnar. Listamennirnir eru þekktir af því verk þeirra lifa með þjóðinni. Og það er þeim refsað fyrir á hverju einasta ári.

Höfundur er rithöfundur.