Ókunnug kona vatt sér að sólveigu á skemmtistað: tjáði hatur sitt af miklum þunga – „hún hatar í mér röddina“

„Á föstudagskvöldið fór ég aðeins út á lífið með Heiðu vinkonu minni. Við skemmtum okkur vel og ákváðum að dansa smá á dans-stað áður en við færum heim að sofa. Í dansinum kom tvisvar til mín kona, mjög glöð og í dansskapi, til að sega mér að hún væri mjög hrifin af því sem að ég segði en hataði í mér röddina, hataði!“

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar á Facebook en þar hrósar hún konunni fyrir hreinskilni. Sólveig bætir við konan hafi tjáð sig á þann hátt, þegar hún lýsti af miklum þunga hatri sínu á rödd verkalýðsforingjans, að hún hafi trúað hverju orði.

„Hún hatar í mér röddina sem á það vissulega til að verða skræk ef ég er sérlega æst að tala um arðránið og almennan níðingsskap,“ segir Sólveig og bætir við:

„Mér finnst töff hjá konunni að vilja segja mér þetta; vinur er sá er til vamms segir og við, ég og konan, dæmum ekki það sem að sagt er af því hversu ógeðslega skræk röddin er sem að segir það, þó að það sé kannski erfitt að einbeita sér að því að hlusta þegar skræk-ið kikkar inn.“

Sólveig kveðst ætla að taka gagnrýni hinnar hreinskilnu konu til greina. Hún segir að lokum:

„Ég og hún erum sammála um það og ég ætla að reyna að vera aðeins minna skræk. Kannski.“