Ný leið til íbúðakaupa

Húsnæðismál

Ný leið til íbúðakaupa

Ný lausn fyrir fólk á leigumarkaði sem vill kaupa fyrstu íbúð kallar á velvilja lífeyrissjóðanna, segir Hallgrímur Óskarsson, verkfræðingur og ráðgjafi sem hefur kynnt stjórnvöldum og stjórnendum lífeyrissjóða nýja útfærslu á lánafjármögnun til íbúðakaupa.

Hann segir að stjórnendur sjóðanna þurfi að samþykkja að taka þátt í nýju kerfi fyrir fólk sem vill eignast eigið húsnæði eigi það að verða að veruleika. Þeirra þátttaka sé lykilatriði og þeirra hlutverk í samfélaginu að leggja fólki lið á þennan hátt, segir Hallgrínur.

Heitið á þessari leið er „Strax í skjól” og hefur Hallgrímur rætt m.a. við Eygló Harðardóttur, húsnæðismálaráherra sem tók vel í þennan möguleika. Kerfið er byggð á fyrirkomulagi sem viðgengst í Sviss og í Þýskalandi, að sögn Hallgríms.  Það er í einföldu máli þannig að launþeginn lánar í raun sjálfum sér sinn eigin lífeyrissparnað sem hann borgar svo til baka í sjóðinn á næstu árum. Fyrirframgreiddur skyldulífeyrir er notaður sem eigið fé til útborgunar í fyrstu íbúð.

Með því að komast undan himinhárri leigu getur fólk aukið ráðstöfunartekjur sínar þegar í eigið húsnæði er komið og greitt til baka í lífeyrissjóðinn. Vandinn, bendir Hallgrímur á, felst fyrst og fremst í því að fólk á ekki fyrir útborgun í íbúð á markaði sem býður 80 prósent fasteignalán að jafnaði. Þannig kemur lífeyrissparnaðurinn til sem fjármögnunarmöguleiki. Engin kerfisbreyting þarf að verða hjá lífeyrissjóðunum, segir Hallgrímur en þó þyrftu þeir að breyta reglum til að opna fyrir þennan  möguleika.

Hallgrímur sér fyrir sér að setja mætti í gang tilraunaverkefni á vegum stjórnvalda. Sérstaða hugmyndarinnar er að hana er hægt að framkvæma strax en ekki eftir einhver misseri, segir Hallgrímur í viðtali á Hringbraut sem verður á dagskrá kl.21.30 í kvöld.  Nánar má sjá útfærslu Hallgríms á vefsíðunni: www.verdicta.com/strax/ 

 

 

 

 

Nýjast