Minnir á gapastokk miðalda

Umræðan á samfélagsmiðlum er farin að minna á gapastokk miðalda og opinbera smánun sem valdatæki, segir Frosti Logason útvarpsmaður. Klausturmálið og viðbrögð við því voru til umræðu í Silfrinu í dag. Frosti sagði að í heilbrigðri stjórnmálamenningu væru menn þegar farnir að sjá afsagnir. Samfélagsmiðlar hefðu gert mikið gagn og væru til margra hluta nytsamlegir en þeir ættu líka sínar skuggahliðar. Það ætti sérstaklega við um opinbera smánun. 
 

„Hvort myndirðu vilja vera í þeirri stöðu að sex fylliraftar hafi talað illa um þig inni á bar eða tugþúsundir eða hundruð þúsund Íslendinga leggjast allir á eitt í keppni um að skrifa hvern annan vandlætingarstatusinn á Facebook og Twitter,“ sagði Frosti en tók fram að með því vildi hann ekki gera lítið úr líðan þeirra sem hefðu heyrt um sig rætt með þessum hætti.

Frosti sagði að opinbera smánunin hafi náð hámarki í Borgarleikhúsinu í síðustu viku þegar settur var á svið leiklestur þar sem fullur salur fólks hafi klappað og hlegið að óförum annarra. Hann sagði þetta minna á myrkar miðaldir þegar opinber smánun var mikilvægt valdatól. Þá hefði gapastóllinn verið notaður og virkað svo vel að menn lögðu hann af. „Þetta er eitrað, þetta er mannskemmandi. Þessi kúltúr sem er kominn á samfélagsmiðlunum er vísir að þessu, að við erum komin aftur í þennan tíma.