Miðju stjórn eða vinstri stjórn

 

Tvær síðustu skoðanakannanir benda til þess að valið í kosningunum á morgun snúist um miðjustjórn eða vinstri stjórn. Núverandi hægri stjórn á enga möguleika fremur en í fyrri könnunum.

Síðasta könnun Stöðvar 2 bendir til að flokkarnir sem sammælst hafa um myndun vinstri stjórnar fái ekki meirihluta. Það þýðir að einhers konar miðju stjórn yrði  óhjákvæmileg.

Aftur á móti gefur síðasta könnun félagsvísindastofnunar sem Morgunblaðið birtir til kynna að vinstri flokkarnir geti myndað stjórn með Bjartri framtíð. Þetta sýnir að mjótt virðist vera á munum.

Möguleikinn á vinstri stjórn byggist á einni mestu þverstæðu sem birst hefur í íslenskum stjórnmálum um langan tíma.   Björt framtíð skilgreinir sig sem miðju flokk. Sú skilgreining rímar vel við stefnumálin. En þegar kemur að því að taka afstöðu til stjórnarmyndunar kýs Björt framtíð fremur að styðja stjórnarmynstur sem er fjær miðjunni en nær.

Fram að hruni voru allar ríkisstjórnir með einhverjum hætti málamiðlanir yfir miðjuna. Þetta breyttist við hrunið. Fyrst eftir það kusum við hreina vinstri stjórn. Síðan kusum við hreina hægri stjórn með popúlistísku ívafi.  Báðar fengu þær drjúgan meirihluta í byrjun en enduðu með um þriðjungs fylgi.

Með öðrum orðum: ystu pólarnir til vinstri og hægri hafa ekki náð að varðveita traust kjósenda út heilt kjörtímabil. Nú er aftur möguleiki á miðjustjórn. En hann er tæpur samkvæmt þessum skoðanakönnunum.

Í ljósi þess að Björt framtíð hefur þegar fyrir kosningar valið vinstri möguleikann fram yfir miðju möguleikann virðist einsýnt að miðju stjórn verður aðeins tryggð með auknu fylgi Viðreisnar. Þó að hún hafi samkvæmt könnunum náð markmiðum sínum um fylgi þarf hún vegna afstöðu Bjartrar framtíðar aukinn styrk til þess að miðjustjórn verði örugglega að veruleika.

Önnur tíðindi undir lok kosningabaráttunnar eru þau að Píratar hafa fallið frá eina skýra stefnumáli sínu. Það var að hafa kjörtímabilið stutt til þess að ljúka stjórnarskrármálinu. Málefnalega hefur þetta þau áhrif að VG styrkir til muna stöðu sína í viðræðum um nýja vinstri stjórn.