Ríkisstjórnin kolfallin, píratar á stærð við sjálfstæðisflokkinn og miðflokkur í sókn

Könnun MMR sem framkvæmd var dagana 4. - 17. júlí 2019 er um margt athyglisverð. Þar sést að Sjálfstæðisflokkurinn mælist rúmlega þremur prósentustigum minna en við mælingu í júní og hefur aðeins 19 % fylgi. Á sama tíma bætir Miðflokkurinn mikið við sig eða tæp fjögur prósentustig milli mælinga og mældist nú 14,4%. Miðflokkurinn virðist því sækja sitt fylgi til óánægðra Sjálfstæðismanna og má líklega kenna óánægju sumra Sjálfstæðismanna um að flokkurinn ætli sér að samþykkja orkupakka 3.

Könnun MMR hlýtur að teljast áfall fyrir ríkisstjórnina en stjórnarflokkarnir mælast nú einungis með 27 þingmenn á bak við sig. Þeir hafa allir tapað fylgi og þingmönnum frá síðustu kosningum. Ef úrslit kosninga nú yrðu þessi þá væri ríkisstjórnin kolfallin.

Sjálfstæðisflokkurinn er kominn niður í 19% fylgi og hefur aldrei mælst minni í könnunum MMR. Flokkurinn fengi 14 þingmenn kjörna og tapaði 2 frá kosningunum 2017.  Vinstri græn mælast með 10.3% og fengju nú 7 þingmenn kjörna í stað 11 þingmanna í síðustu kosningum en þá var fylgið um 17%. VG hefur tapað um 40% af fylgi sínu það sem af er kjörtímabili. Framsóknarflokkurinn mælist nú með 8.4% og 6 þingmenn í stað 8 þingmanna í síðustu kosningum. Stjórnarflokkarnir hafa þannig tapað 8 þingsætum frá kosningunum 2017.

Píratar eru með 14.9% samkvæmt könnun MMR sem gæfi þeim 10 þingmann í stað 6 þingmanna í síðustu kosningum. Miðflokkurinn er með 14.4% og fengi einnig 10 þingmenn, bætir við sig 3 þingmönnum frá kosningunum. Ljóst er að Miðflokkurinn er nú að sópa til sín fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Kjósendur virðast hafa gleymt Klausturmálinu ef marka má niðurstöðu þessarar könnunar. Viðreisn mælist nú með 9.7% fylgi sem gæfi flokknum 7 þingmenn í stað 4 í kosningunum 2017. Samfylkingin mælist nú með 13.5% fylgi og fengi 9 þingmenn í stað 7 í kosningunum 2017.

Flokkur fólksins næði ekki að koma mönnum á þing. Flokkurinn fékk 4 þingmenn kjörna síðast. Tveir þeirra eru gengnir í Miðflokkinn. Sósíalistaflokkur Íslands fengi 4.3% og engan mann kjörinn.

Píratar eru næst stærsti flokkurinn á þingi með tæplega 15% prósent og standa nánast í stað frá síðustu mælingu á meðan Samfylkingin og VG lækka. Viðreisn bætir svo örlítið við sig og stendur í tæpum 10%.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 19,0% og mældist 22,1% í síðustu könnun.
Fylgi Pírata mældist nú 14,9% og mældist 14,4% í síðustu könnun.
Fylgi Miðflokksins mældist nú 14,4% og mældist 10,6% í síðustu könnnun.
Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 13,5% og mældist 14,4% í síðustu könnun.
Fylgi Vinstri grænna mældist nú 10,3% og mældist 11,3% í síðustu könnun.
Fylgi Viðreisnar mældist nú 9,7% og mældist 9,5% í síðustu könnun.
Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 8,4% og mældist 7,7% í síðustu könnun.
Fylgi Flokks fólksins mældist nú 4,8% og mældist 4,2% í síðustu könnun.
Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist nú 4,3% og mældist 4,4% í síðustu könnun.
Fylgi annarra flokka mældist 0,8% samanlagt.