Miðflokkurinn málar sig út í horn og Bjarni Benediktsson hættir í haust

Miðflokkurinn málar sig út í horn og Bjarni Benediktsson hættir í haust

 Náttfari hélt því fram fyrr í vikunni að innan skamms yrðu breytingar á ríkisstjórninni þannig að Vinstri grænum yrði skipt út fyrir Miðflokkinn og Bjarni Benediktsson yrði forsætisráðherra. Bent var á að sjálfstæðismönnum væri það mikil raun að þurfa að sætta sig við að sósíalisti leiddi ríkisstjórn og að Steingrímur J. væri forseti þingsins í skjóli flokksins.

Innanbúðarmenn í Sjálfstæðisflokknum hafa bent okkur á að þetta sé í sjálfu sér rétt. En hins vegar hafi framkoma Miðflokksmanna í þinginu síðustu sólarhringa gert það að verkum að enginn geti hugsað sér að starfa með þeim. Eftir eitt kjánalegasta málþóf þingsögunnar er Miðflokkurinn ekki talinn með. Hann er ekki stjórntækur. Hann er bæði óalandi og óferjandi. Enginn getur hugsað sér að vinna með þeim. Hvað þá að taka Miðflokksmenn inn í ríkisstjórn. Þeir sem reyndu að gleyma misgjörðum þeirra í Klausturmálinu hafa nú látið af þeim tilburðum. Sigmundur Davíð og hans lið mun því halda áfram að lemja hausnum við steininn. Þegar þriðji orkupakkinn hefur verið afgreiddum með yfirburðakosningu í þinginu, mun flokkurinn einbeita sér að áframhaldandi þjóðernispoppúlisma og undiurbúa næstu kosningar á þeim nótum. Reiknað er með að um 10% þjóðarinnar aðhyllist slíka öfgahægristefnu og þau atkvæði ætlar Miðflokkurinn að eiga vís í næstu kosningum. Hvort einhverjir af þessum gömlu og svekktu sjálfstæðismönnum sem hafa haft sig mest í frammi ganga til liðs við Miðflokkinn mun ekki skipta neinu. Jafnvel þó þekkt nöfn verði þar á meðal eins og Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Styrmir Gunnarsson og fleiri þjóðernissinnar. Málflutningur þeirra á engan hljómgrunn.

Þá er því haldið fram að Bjarni Benediktsson vilji alls ekki rugga bátnum. Hann er sagður undirbúa brottför úr stjórnmálum, jafnvel strax í haust. Hann vill stíga niður sem ráðherra og geta haldið því fram að hér ríki stöðugleiki þó horfur í þjóðarbúskapnum séu hreint ekki góðar. Bjarni mun vera orðinn „hundleiður“ á stjórnmálavafstrinu, eins og einn þingmaður flokksins sagði við okkur. Lái honum hver sem vill!

Flokkseigendur Sjálfstæðisflokksins, með Bjarna í fararbroddi, ætla sér að gera Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur að formanni. Hvað sem það kostar. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á ekki upp á pallborðið hjá þeim eins og kunnugt er. Hins vegar er Guðlaugur Þór sjálfsagður arftaki Bjarna þegar litið er á pólitíska reynslu og klókindi. Þórdísi skortir reynslu þó hún hljóti að teljast efnileg og líklegur leiðtogi flokksins síðar.

Okkur skilst að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir taki við stöðu dómsmálaráðherra fljótlega eftir að þingið fer heim í júní. Mikið hefur mætt á henni að undanförnu og þykir hún hafa vaxið í áliti. Í sumar verður svo boðað til landsfundar þar sem Bjarni stígur niður og víkur fyrir nýjum formanni. Hann mun í kjölfarið hætta á Alþingi og hverfa úr ríkisstjórn.

Á landsfundi verður kosið á milli Guðlaugs Þórs og Þórdísar Kolbrúnar. Það gætu orðið lífleg átök. Guðlaugur Þór er með svo öflugt bakland í flokknum að engin mun geta komið í veg fyrir að hann verði kosinn næsti formaður Sjálfstæðisflokksins – nokkuð örugglega.

Nýjast