Manst þú eftir ofsaveðrinu 1991? sjáðu myndbandið: byggingar, þök og heilu húsin tókust á loft og splundruðust

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustígi vegna stormsins sem skellur á landinu á morgun. Þá gaf Veðurstofan út rauða viðvörun í fyrsta sinn. Búast má við að skólahald raskist og þá fara samgöngur úr skorðum. Fólk er hvatt til að halda sig heima. Þá hefur verið varað við mögulegri snjóflóðahættu.

Í gegnum árin hafa hin ýmsu óveður skollið á landinu. Hér ætlum við að rifja upp eitt það allra versta sem átti sér stað þann 3. febrúar 1991 og olli milljarða tjóni. Myndskeið með afleiðingum stormins má sjá neðst í frétt ásamt viðtölum við fjölda manns.

Þar tókust hús á loft og þök fuku í heilu lagi. Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun um þetta skelfilega veður:

Svona voru fréttirnar eftir eitt versta veður sem riðið hefur yfir landið 3. febrúar 1991: 

Gífurlegt eignatjón varð í ofsaveðrinu sem gekk yfir landið á sunnudag.  Engar nákvæmar tölur hafa verið  gefnar út yfir tjónið en víst þykir að  það nemur milljörðum króna.

Tjón varð á fjölda bygginga. Þök  fuku í heilu lagi eða í pörtum og heilu  húsin tókust á loft og splundruðust. Fjöldi farartækja skemmdist eða  eyðilagðist. Þá varð mjög mikið tjón  á gróðri, tré rifnuðu upp með rótum  og þökur flettust af túnum.

Hér á  eftir fer yfirlit yfir tjónið frá Skógum, vestur um og norður til Akureyrar.  Eins og þegar hefur komið fram og  skýrt hefur verið ítarlega frá varð óheyrilegt tjón á Suðurnesjum, Vestmannaeyjum og á höfuðborgarsvæðinu. Hér verður hinsvegar stiklað á  stóru í umfjöllun um önnur svæði.

Suðurland

Ef tína ætti til alla bæi á Suðurlandi þar sem tjón varð yrði sá listi  mun lengri en þar sem ekki varð tjón.  Ljóst er að útihús, sem skemmst hafa í ofsaveðrinu, skipta tugum og víða  urðu miklar skemmdir á íbúðarhúsum. Auk þess varð víða mikið tjón á tækjum er heyvinnuvélar, sem  staðið hafa úti á túnum, tókust á loft  og fuku langar leiðir, sömuleiðis skemmdust bílar bænda á mörgum  bæjum.

\"\"

Undir Austur-Eyjafjöllum urðu  mestar skemmdir að Rauðafelli 3 og 4. Á Rauðafelli 4 fór hluti af þaki á  íbúðarhúsi.

Á báðum bæjunum fuku  járnplötur af fjósi og fjárhúsum. Í  Eyvindarhólum gekk hlöðugaflinn  og þak fauk af vélageymslu. Ekki var búið að fá heildstæða mynd af tjóni sem varð undir Vestur-Eyjafjöllum en vitað er að járn  losnaði af íbúðar og útihúsum á mörgum bæjum. Til að mynda fauk  hluti þaks af hlöðu í Neðri-Dal og á Skálabæjum varð mikið tjón. Í Austur-Landeyjum fauk járn af nokkrum  útihúsum en tilfinnanlegast varð  tjónið á Leifsstöðum þar sem nýuppgert íbúðarhús tókst á loft og fauk út  í buskann.

Í gær var ekki búið að meta tjón í  Vestur-Landeyjum. Óveðrið lék  Fljótshlíðinga mjög grátt. Í Smáratúni fauk járn af þaki fjóss sem rúmar rúmlega 100 nautgripi. Í Hellishólum fuku tvö hesthús og á Efri-Þverá fauk 100 kinda fjárhús, og svipaður skaði varð á Kirkjulæk, í Ormskoti fauk helmingurinn af þakinu á  íbúðarhúsinu og á Lambalæk fauk hluti af hlöðu út í buskann.  Minna tjón varð á Hvolsvelli.

\"\"

Mestar skemmdir urðu á trésmíðaverkstæði Guðfinns Guðmundssonar,  þakplötur losnuðu af  5 til 10 íbúðarhúsum en í nágrenni bæjarins máttu  bændur víða þola þungar búsifjar, til  að mynda skemmdust útihús á bæjunum Dufþaksholti, Götu og gróðurhús skemmdust á Stórólfsvöllum. Á Hellu varð tjón á um 20 íbúðarhúsum er járnplötur fuku af þeim  og mikið var um rúðubrot.  Í uppsveitum Rangárvallasýslu  varð tjón á nánast hverjum bæ.

Má  þar nefna að í Djúpárhreppi urðu  miklar skemmdir. Á Háðrim fuku  vélaskemma og hlaða en fjós hrundi,  á Háfi 2 er íbúðarhúsið óíbúðarhæft  því suðurhlið hússins gekk 30 cm inn og munaði litlu að húsið hryndi.  Svipaða sögu er að segja úr Landmannahreppi. Á Snjallsteinshöfða  fauk fjárhús og sömuleiðis á Árbakka og í Neðra-Seli fauk fjárhús  og kálfahús.

Tjón varð á mörgum íbúðarhúsum  á Selfossi. Á flugvellinum fauk upp  hurð á flugskýlinu með þeim afleiðingum að lítil flugvél, sem var í skýlinu, skemmdist töluvert.

\"\"

Á Stokkseyri og Eyrarbakka urðu víða miklar  skemmdir á íbúðarhúsum og í Þorlákshöfn urðu miklar skemmdir á  þökum bygginga Meitilsins.  Tjón varð á nær öllum bæjum í Árnessýslu.

Í Vorsabæjarhjáleigu fauk fjárhús, og  járn fór af íbúðarhúsi og geymslu, á  Hamri fauk fjárhús og í Seljatungu  fauk ærhús, hlaða og íbúðarhúsið  skemmdist nokkuð. Í Borgarkoti hvarf heil hlaða út í buskann og í  Vorsabæ fór allt járn af fjósi. Á Neistastöðum hrundi hlöðuveggur.  Lenti hann á traktor og heybindivél  auk þess sem þak fór af hlöðu.

Á Flúðum skemmdust gróðurhús  og að Syðra-Seli, Hrafnkelsstöðum og Hrafnsstöðum fuku fjárhús. Hveragerði fór illa út úr fárviðrinu,  þar skemmdust mörg gróðurhús.  Miklar skemmdir urðu á tívolíhúsinu og í Eden, auk þess sem plötur  fuku af nokkrum íbúðarhúsum og  af vélsmiðju.  

Vesturland

Á Akranesi fauk viðbygging fiskverkunarhúss hjá Heimaskaga yfir  að plani Olísbensínstöðvarinnar,  braut rúður og ljósastaura. Einnig  fuku járnplötur af síldarverksmiðjunni, miklar skemmdir urðu á trésmiðju, bílskúrar hrundu að hluta  við Jaðarsbraut og klæðningar flettust af húsum. Lögreglan fékk 90 tilkynningar um fok og tjón.  

\"\"

Í Borgarnesi fauk þak af brauðgerð  Kaupfélagsins og plötur fuku af 8 húsum. 12 bílar skemmdust en einn  fauk út af við Hafnará. Þrír gróðurskálar íbúðarhúsa fuku, 2 plastgróðurhús í Kárastaðalandi og glerhús á Kleppjárnsreykjum. Þak fauk af  hlöðu að Ásgarði í Reykholtsdalshreppi og þak fauk alveg af hlöðu að Brekku í Borgarhreppi. Þak fór af  hlöðu og fjárhúsi á Krossi í Lundarreykjadal, plötur losnuðu af íbúðarhúsi og útihúsum að Hofsstöðum í  Álftaneshreppi, þak losnaði af útihúsi og íbúðarhúsi að Gröf í Borgarhreppi, 4 rúður brotnuðu í íbúðarhúsi að Höfn í Melasveit.

\"\"

Á sunnanverðu Snæfellsnesi varð  tjón á mörgum bæjum í Miklaholtshreppi og Eyrarsveit en minna í Staðarsveit og Breiðuvík. Í Stykkishólmi  varð tjón mest á skipasmíðastöð  Skipavíkur. Þar skemmdust 6-700  fermetrar af þakinu. Brakið af sólstofu í einbýlishúsi fauk á haf út og  golfskúr í bænum tókst á loft og  splundraðist. Vélageymsla, gamalt  íbúðarhús, þrír bílar og nýr sumarbústaður skemmdust að Kárastöðum  í Helgafellssveit.  í Grundarfirði fauk járn af nokkrum húsum, rúður brotnuðu í híbýlum og í bílum, gámur valt á hliðina  og tveir kappróðrarbátar skemmdust  er þeir fuku yfir grjótgarð við Suðurbryggju.

Á bænum Kverná fauk hjólhýsi á haf út, verönd á sumarhúsi  þyrlaðist í loft upp og heyhlaða „sprakk\". Stórtjón varð að Skallabúðum. Þar fuku gróðurhús, harðfiskhjallur, fjárhús, verkfærageymsla og 15 járnplötur fuku af  hlöðu. Íbúðarhús er stórskemmt.  Plötur fuku af húsi á Höfða og gróðurhús fauk að Hördrum í Eyrarsveit.  Í Ólafsvík varð tjón mest þegar 90  prósent af þaki vinnslusalar hraðfrystihússins skemmdist, stór vöruskemma lagðist saman, hluti þaks á  tveimur íbúðarhúsum fauk og litlu  munaði að fjúkandi gámur ylli  skemmdum. 4-5 bílar skemmdust  einnig.

\"\"

Maður lenti í miklum háska  á einum þeirra við Ólafsvíkurenni.  Trilla sökk á Rifi. Þar brotnuðu einnig rúður og reykháfar fuku af húsum.

Vegklæðningar rifnuðu upp á ýmsum stöðum á Snæfellsnesi.  í Dalasýslu var símasamband í  lamasessi í gær og ekki vitað um  orsakir. Þak lyftist af og veggur féll  út í slökkvistöð í Búðardal og mikið  tjón varð á bænum Giljalandi. Þak  fauk í heilu lagi af hlöðu og þrír bílar heimilisfólks skemmdust. Í gær var  vitað um töluvert tjón á 5-6 bæjum  í Suðurdölum.

Í A-Barðastrandarsýslu fuku fjárhús og hlaða að Mýrartungu 1, fjós  fauk á Borg í Reykhólasveit, plötur  fóru af á Bæ í Króksfirði og tengivagn fór á hliðina hjá Kaupfélaginu.

 \"\"

Vestfirðir

Á Þingeyri sluppu menn sæmilega  frá veðrinu en á Ketilseyri fauk þak  af hlöðu og bíll fauk 70 metra. Þá fór illa á nokkrum bæjum í Arnarfirði.  Á Flateyri og í Önundarfirði varð verulegt tjón.

Skemmdust 36 íbúðir  og var mikið plötufok. Þak beinamjölsverksmiðju Hjálmshf. fór af og gafl lagðist inn þannig að milligólf  sprakk og skekktist. Töluverðar  skemmdir urðu á bæjum í firðinum firði og fauk einn sumarbústaður í  heilu lagi á haf út.

Á Suðureyri varð ekki teljandi tjón  en þak fór af einu húsi. Inni í firði  méluðust tveir nýir sumarbústaðir  og gömul hlaða hvarf. Á Patreksfirði  fauk mikið af plötum og einnig fiskhjallur.

\"\"

Á Tálknafirði fauk þak af  Bjarnabúð og af laxeldisstöð. Þá fauk  hesthús í heilu lagi.

Á Hólmavík varð ekki mikið tjón.  Þó skemmdist hafnargarðurinn og  grófst undan Strandgötunni á kafla.  Fauk af tveimur fjárhúsum og einni  hlöðu í nágrannasveitum.  

Norðurland

\"\"

Töluvert tjón varð á Norðurlandi  vestra.

Á Blönduósi féll nýlegt flugskýli nærri saman og stórskemmdust fjórar flugvélar þar inni. Þök nokkurra húsa skemmdust illa og  mikið var um plötufok og rúðubrot.

Nokkurt tjón varð á Holti á Ásum  og á Húnavöllum.  Á Sauðárkróki fuku þakplötur og  skemmdu rúður og bíla. Á bænum  Sandfelli stórskemmdist nýlegt íbúðarhús og á Narfastöðum splundraðist heil viðbygging við kanínubú.

Á  Hofsósi þeytti veðrið 7 tonna báti upp  á land og braut hann.  Á Hvammstanga voru menn vel  undir veðrið búnir og sluppu þokkalega. Á um 30 bæjum í nágrenninu  varð mikið tjón.

\"\"

Á Þorgrímsstöðum  á Vatnsnesi fauk til að mynda hús  ofan af 180 kindum. Í Víðidal brotnuðu rúður í öllum suðurgluggum á  einum bæ og fjöldi rafmagnsstaura.

Á Laugabakka í Miðfirði eyðilagðist  gróðurhús og flugskýli. Á Skagaströnd fór grjót fór illa með margar  rúður sem voru eins og gatasigti á  eftir. Á bænum Felli fauk heil fjóshlaða og 250 baggar af heyi hurfu. Á Siglufirði, Ólafsvík, Dalvík og  Akureyri varð ekki tjón í sama mæli  og annars staðar. Menn náðu að  sinna fyrirbyggjandi aðgerðum og  vindáttin var ekki sú óhagstæðasta.

Á bæjum í sveitum nyrðra fór víða  illa. Á bænum Koti í Svarfaðardal  fauk þak af íbúðarhúsi, tveir bílar og hænsnakofi með 12 hænsnum