Magnús Óskarsson er látinn: „Húm­oristi og stór­merki­leg per­sóna“

Magnús Óskarsson er látinn: „Húm­oristi og stór­merki­leg per­sóna“

Magnús Óskars­son fædd­ist á Saur­um í Mýra­sýslu 9. júlí 1927. Hann lést á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Sunnu­hlíð 28. des­em­ber 2019.

Hann starfaði við Bænda­skól­ann á Hvann­eyri frá ár­inu 1955. Kenndi við Bænda­deild og Bú­vís­inda­deild og var til­rauna­stjóri skól­ans um ára­bil. Auk þess yfir­kenn­ari Bænda­deild­ar 1972-1982. Hann sat í ýms­um nefnd­um um land­búnaðar­mál og nátt­úru­vernd auk þess að eiga sæti í hrepps­nefnd Anda­kíls­hrepps í mörg ár og sinna fleiri trúnaðar­störf­um en Magnús var Framsóknarmaður.

Magnús var við nám og störf á sviði jarðrækt­ar og tilraunafræða í Hollandi og Nor­egi. Hon­um buðust ýmis tæki­færi til náms og at­vinnu á sínu sviði en hann kaus að vinna í ís­lensk­um land­búnaði.

Eft­ir Magnús ligg­ur mikið af kennslu- og fræðslu­efni um áburðarnotk­un, jarðrækt og ekki síst garðrækt, og fólst ævi­starfið í marg­vís­leg­um til­raun­um á þeim vett­vangi.

Magnús lét af störf­um við Land­búnaðar­há­skól­ann á Hvann­eyri árið 1996.

Magnúsi er lýst af samferðamönnum, samstarfsfólki og fyrrum nemendum sem afbragðskennara. Hann var einlægur félagshyggjumaður sem hafði mikinn áhuga á stjórnmálum. Hann virk­ur á sviði fé­lags­mála bæði fyr­ir sam­fé­lag sitt og á fagsviði sínu. Hann sat í hrepps­nefnd Anda­kíls­hrepps um sex­tán ára skeið, auk fjölda nefnda um fé­lags­leg og fag­leg mál­efni. Magnúsi er lýst sem hornsteins Hvanneyrarskóla.

Ólafur R. Dýrmundsson segir í minningargrein í Morgunblaðinu:

„Um­hverf­is­mál voru ekki fyr­ir­ferðar­mik­il í þjóðmá­laum­ræðunni fyr­ir 40-50 árum en Magnús var fyrr en flest­ir kom­inn á fulla ferð í þeim efn­um. Oft vitnaði hann í skýrslu Rómar­klúbbs­ins frá 1972, lánaði mér hana og tókst að hafa mik­il áhrif á mig.“

Bjarni Guðmundsson, nemandi og seinna samstarfsmaður Magnúsar skrifar í morgunblaðið um Magnús:

„Hann var löng­um sam­viska stofn­un­ar­inn­ar, af­skap­lega næm­ur á anda starfs­um­hverf­is­ins og ráðholl­ur. Svei mér ef hann var ekki for­vitri líkt og Njáll. Ráð hans dugðu enda bet­ur en flestra annarra. Því urðu til þeir tím­ar í starfi Hvann­eyr­ar­skóla, ekki síst í and­byr, að Magnús var límið; bjálk­inn sem bar.“

Þá skrifaði Bjarni einnig grein í Bændablaðið en þar segir:

„Þá er það fagurkerinn Magnús. Sá lýsti sér ekki aðeins í hvers­dags­klæðnaði hans að hætti enskra hefðarmanna á meðan við hinir yngri kennararnir lufsuðust um í lopapeysum og gallabuxum. Á fjölmörgum náms- og kynnisferðum, svo og í sumarleyfum, gerði Magnús sér far um að kynnast menningu þjóða, og sótti menningarstaði, söfn og sýningar eftir megni. Mörgum okkar nemenda hans eru í fersku minni menningarkvöldin svonefndu er Magnús bauð til í stofu sinni, framan af með Þorsteini kollega sínum frá Húsafelli, þar sem leikin var sígild tónlist af hljómplötum, fjallað um bókmenntir og fleira sem andann auðgaði utan hins daglega amsturs.“

Magnús B. Jónasson minnist Magnúsar Óskarssonar í grein á Skessuhorni. Þar segir:

„Á sviði rannsókna og tilraunastarfs naut Magnús ekki síður virðingar samferðamanna. Nákvæmni í vinnubrögðum og skilvirkni voru hans aðalsmerki. Þá var hann frumkvöðull og óragur við að prófa nýjar og áður óþekktar tegundir einkanlega á sviði matjurta.  Hann samdi kennslubækur fyrir bændaskólana og ritaði fjölda greina um jarðrækt og matjurtarækt auk þess að flytja erindi og fyrirlestra á ráðstefnum landbúnaðarins.

Auk starfa sinna við kennslu og rannsóknir var Magnús virkur á sviði félagsmála bæði fyrir samfélag sitt og á fagsviði sínu. Hann sat í hreppsnefnd Andakílshrepp um sextán ára skeið. Átti sæti í Tilraunaráði landbúnaðarins og Búfræðslunefnd um árabil auk fjölda nefnda um margvísleg málefni bæði félagsleg og fagleg. Þar eins og á sviði fræðanna naut hann virðingar og trausts.

Með Magnúsi Óskarssyni er genginn einn af máttarstólpum í starfssögu Bændaskólans á Hvanneyri og  frumherji í íslenskri tilrauna- og ræktunarsögu.“

Edda Þorvaldsdóttir vinkona Magnúsar skrifar í Morgunblaðið:

„Magnús var líka húm­oristi, lífs­k­únstner og stór­merki­leg per­sóna. Hann hafði víða farið um heim­inn. Haldið um það dag­bæk­ur og safnað miklu af mynd­efni. Hann sagði skemmti­lega frá og var marg­fróður um ótrú­leg­ustu hluti.

Hann átti til að koma veru­lega á óvart, svo sem þegar hann bauð til „erfi­drykkju inni­skónna“ og þegar lagst var á stofugólfið á Kvennaloft­inu til að hlusta á tónlist. Bendif­ing­ur á lofti og setn­ing­in „það er betra að hlusta með öll­um lík­am­an­um“.“

Ríkharð Brynjólfsson segir um Magnús í Morgunblaðinu:

„Njáll á Bergþórshvoli lét aka skarna á tún svo bet­ur sprytti. Í mörgu mætti líkja Magnúsi við þenn­an for­vera sinn í áburðarfræðinni. Mér kem­ur þó frek­ar í hug bróðir Njáls, Holta-Þórir. Í brúðkaupi Gunn­ars og Hall­gerðar á Hlíðar­enda er ná­kvæm­lega lýst hvernig raðað var til borðs eft­ir mann­v­irðing­um. Holta-Þóri hefði borið að sitja of­ar­lega, en hann kaus að sitja yst­ur „því þá þótti hverj­um gott þar sem sat“.

Þannig var Magnús Óskars­son.“

Útför­ Magnúsar fór fram í Kópa­vogs­kirkju í dag, 22. janú­ar 2020.

Nýjast