Lýsa yfir vonbrigðum með formannsskipti

Lýsa yfir vonbrigðum með formannsskipti

Þingflokkar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins lýsa yfir vonbrigðum með formannsskipti í umhverfis- og samgöngunefnd. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins steig í gær til hliðar sem formaður nefndarinnar og Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók við. Telja flokkarnir fjórir vera um brot á samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu um skiptingu á formennsku í nefndum.

Í yfirlýsingu flokkanna segir að í nefndinni hafi ríkisstjórnarflokkarnir Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur stutt tillögu Miðflokksins um slíkt brot. Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar, auk Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Vinstri grænna og Björns Leví Gunnarssonar, áheyrnarfulltrúa Pírata töldu óásættanlegt að Bergþór gengi að trúnaðarstörfum sínum vísum eftir framgöngu sína á Klaustur bar. 

Krafa þeirra um formannsskipti var vísað frá af meirihlutanum og höfðu fulltrúar minnihlutans margsinnis lagt til að Miðflokkur tilnefndi einn þriggja þingmanna flokksins sem áttu ekki hlut að máli á Klaustur bar. Auk þess hafi minnihlutinn lagt til að formannsembættið færðist á næsta flokk í stjórnarandstöðu og lögðu því til að fulltrúi Viðreisnar tæki við formennsku nefndarinnar. Bergþór hafi hins lagt til að formennska færi heldur til stjórnarliða, sem meirihlutinn samþykkti.

„Afstaða hins nýja meirihluta liggur nú fyrir. Stjórnarflokkarnir nýta sér þær fordæmalausu aðstæður sem uppi eru og varða virðingu Alþingis og störf til að ganga á bak orða sinna varðandi samkomulag við stjórnarandstöðuna um skiptingu formennsku í nefndum,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.

Yfirlýsingin í heild:

Vegna formannsskipta í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis lýsum við yfir miklum vonbrigðum með að ríkisstjórnarflokkarnir VG, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, hafi stutt tillögu Miðflokksins sem lagði til brot á samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu um skiptingu á formennsku í nefndum.

Fyrir umhverfis- og samgöngunefnd lágu tvær tillögur enda ljóst að fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar, auk Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur þingmanns VG og Björns Leví Gunnarssonar, áheyrnarfulltrúa Pírata, töldu óásættanlegt að fulltrúi Miðflokksins gengi að trúnaðarstörfum sínum á Alþingi sem vísum eftir framgöngu sína á Klaustri eins og alræmt er.  Krafa þeirra um formannaskipti hafði verið borin fram á síðasta fundi nefndarinnar en þá verið vísað frá af meirihlutanum. Fulltrúar minnihlutans höfðu margsinnis lagt til að Miðflokkur tilnefndi einhvern þeirra þriggja þingmanna flokksins sem ekki höfðu tekið þátt í samkomunni á Klaustri. Minnihlutinn hefur einnig ítrekað lagt til að formannsembættið færist til á næsta flokk í stjórnarandstöðunni á meðan Miðflokkurinn leysir ekki úr sínum málum og lögðu því til að fulltrúi Viðreisnar tæki við formennsku fyrir hönd minnihlutans. Fulltrúi Miðflokks kaus hins vegar að leggja til að formennska færi heldur til stjórnarliða sem meirihlutinn samþykkti.

Við formannsskiptin lágu fyrir tvær tillögur um embætti formanns, 1. varaformanns og 2. varaformanns. Fyrri tillagan var borin upp af fulltrúa Samfylkingar, Helgu Völu Helgadóttur, en sú seinni frá fulltrúa Miðflokksins, Bergþóri Ólasyni. Greidd voru atkvæði um hvert embætti fyrir sig og í öllum tilfellum greiddu fulltrúar stjórnarflokkanna þriggja, að Rósu Björk Brynjólfsdóttur undanskilinni, atkvæði með tillögu Miðflokksins sem fól í sér að öll embættin færu til stjórnarflokkana þriggja.

Afstaða hins nýja meirihluta liggur nú fyrir. Stjórnarflokkarnir nýta sér þær fordæmalausu aðstæður sem uppi eru og varða virðingu Alþingis og störf til að ganga á bak orða sinna varðandi samkomulag við stjórnarandstöðuna um skiptingu formennsku í nefndum.

 

Nýjast