Íslendingarnir sem létust í átökum við lögreglu: stúlkunni á snorrabraut haldið niðri á „mjög aggresívan“ hátt

Ung kona fædd árið 1994 lést í bakgarði við íbúðarhús við Snorrabraut í apríl.  Var hún aðeins í um 500 metra fjarlægð frá bráðamóttöku Landspítalans þegar hún fór í hjartastopp. Foreldrarnir töldu lögreglu hafa farið offari og að stúlkan hefði látist eftir átök við lögreglu. Hringbraut hefur ítrekað fjallað um málið. Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að tveir lögreglumenn voru sakborningar í málinu sem nú hefur verið fellt niður.  Í skýrslu réttarmeinarfræðings segir að aðgerðir lögreglu hafi átt umtalsverðan þátt í dauða konunnar.

Hringbraut fjallar í þessari grein um önnur sambærileg mál og þá er einnig fjallað um andlát stúlkunnar hér fyrir neðan:

Veiktist snögglega og lést

Þann 9. september 2004 lést Bjarki Hafþór Vilhjálmsson eftir átök við tvo lögreglumenn í Keflavík. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni í Keflavík var upphaf málsins það að tilkynnt var um mann sem væri illa á sig kominn á gangi í bænum. Hann virtist í annarlegu ástandi og var því færður í fangageymslu.

\"\"

Bjarki Hafþór Vilhjálmsson

Lögreglan hringdi á heimili mannsins til þess að láta vita af því að hann hafi verið færður í fangageymslu og svaraði sonur mannsins, Bjarki Hafþór, í símann. Eftir samtalið þótti lögreglu ástæða til að kanna ástand Bjarka Hafþórs nánar og voru tveir lögreglumenn sendir á staðinn.  Á vettvangi kom Bjarki Hafþór á móti þeim út á lóðina fyrir utan húsið. Greint var frá því að hann hafi verið æstur og árásargjarn, hafi haft í hótunum við lögreglumenn og mjög erfitt hafi verið að skilja hvað hann var að segja.

Veittist Bjarki Hafþór að lögreglumönnunum og upphófust átök á milli þeirra. Þegar lögreglan hafði náð tökum á honum og sett hann í handjárn varð hann alvarlega veikur og lést skömmu síðar, að því er kemur fram í tilkynningu lögreglunnar. Lögreglumennirnir hófu lífgunartilraunir á lóðinni og kölluðu á sjúkrabíl sem flutti Bjarka Hafþór á sjúkrahús í Keflavík. Þar var hann úrskurðaður látinn og lögreglumönnunum boðin áfallahjálp.

\"\"

Frá vettvangi / Mynd: Hilmar Bragi

Greint var frá því í Morgunblaðinu þann 11. september 2004 að ríkissaksóknari hafi falið lögreglunni í Reykjavík að rannsaka andlát Bjarka Hafþórs. Þar sem rannsóknin beindist m.a. að lögreglunni í Keflavík taldist embættið vanhæft til að sinna henni.

Hörður Jóhannesson, þáverandi yfirlögregluþjónn í Reykjavík, sagði í samtali við Morgunblaðið að ekki lægi fyrir grunur um að maðurinn hafi verið beittur harðræði.

Lést vegna súrefnisskorts til heila

Þann 1. desember 2006 lést Jón Helgason í kjölfar þess að hafa fengið hjartastopp eftir átök við lögreglu. Lögreglumenn höfðu haft afskipti af honum þar sem hann gekk berserksgang á Radisson Hótel Sögu aðfaranótt sunnudagsins 26. nóvember. Jóni hafði verið haldið sofandi í fimm daga eftir hjartastoppið og lést vegna súrefnisskorts til heila, að því er Blaðið greindi frá þann 5. desember 2006.

\"\"

Úr umfjöllun Blaðsins

Mbl.is hafði skömmu áður greint frá því að lög­reglu­menn hafi þurft að beita Jón valdi við hand­tök­una og að hann hafi fengið hjarta­áfall í vörslu þeirra. Lögregla taldi Jón hafa verið und­ir áhrif­um fíkni­efna þegar á hann rann æðið.

\"\"

Jón Helgason

Í frétt Blaðsins segir að nokkra lögreglumenn hafi þurft til að yfirbuga Jón en ekki kemur fram hve marga. Ekki fékkst staðfest hvort maðurinn hafi verið undir áhrifum fíkniefna en þau munu hafa fundist á herbergi hans.

Geir Jón Þórisson, þáverandi yfirlögregluþjónn í Reykjavík, sagði í samtali við Blaðið að ekkert óeðlilegt hafi gerst í samskiptum lögreglu við manninn, né hafi svokallað kæfingartak verið notað við handtökuna. „Það var notast við slíkt á árum áður en er með öllu ólöglegt í dag,” sagði Geir Jón en við slíkt tak er súrefnisflæði heft til heila.

Jón var búsettur í Vogum og lét eftir sig unnustu og tvö börn.

Skotinn til bana af lögreglu

Sævar Rafn Jónasson lést að morgni 2. desember 2013 eftir átök við sérsveit ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Hann var skotinn til bana eftir að nokkurs konar umsátur hafði farið fram við heimili hans að Hraunbæ í nokkra klukkutíma. Viðskiptablaðið og Vísir voru meðal þeirra sem greindu frá.

\"\"

Sævar Rafn Jónasson

Sævar var vopnaður og hafði í tvígang skotið á lögregluna eftir að hún hafði reynt að ráðast inn til hans og afvopna. Í bæði skiptin hæfði Sævar lögreglumann og fór annað skotið í höfuð lögreglumanns, sem var þó með hjálm á höfði og hlaut því ekki alvarleg meiðsli.

Í síðari innrásinni yfirbuguðu lögreglumenn Sævar með því að skjóta hann. Var hann hæfður tvisvar og úrskurðaður látinn skömmu síðar á bráðamóttöku.

\"\"

Skothylki liggja á víð og dreif á vettvangi / Mynd: Vísir.is

Í samtali við Viðskiptablaðið þann 2. desember sagði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri að atburðurinn ætti sér ekki fordæmi á Íslandi. Aldrei áður hafði það gerst að maður hafi hlotið banaskot í átökum við lögregluna.

Systur Sævars Rafns Jónassonar, Sigríður Ósk og Anna Jóna, sögðu í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 þann 3. desember 2013 að hann hefði hótað því að grípa til vopna nokkrum mánuðum fyrr og talað um að hann vildi drepa annað fólk. Þær hafi látið lögregluna vita af því

Þær sögðu gjörðir bróður síns beina afleiðingu af lélegu heilbrigðiskerfi fyrir geðfatlaða og harmleikurinn hafi legið í loftinu.

„Hann var búin að vera að hóta þessu. Sævar fann sig svo vanmáttugan gagnvart fólki og það er líklega ástæðan fyrir því að hann hótaði því að vilja kála öðrum. Við erum auðvitað harmi slegin yfir þessum atburði en þökkum fyrir að það var hann sem féll en ekki einhver annar“, sagði Anna Jóna og gagnrýndi félagsmálayfirvöld harðlega fyrir að hafa ekki gripið í taumana þegar systkini Sævars óskuðu eftir því.

Fór í hjartastopp eftir að hafa verið yfirbuguð

Hringbraut greindi frá því í apríl að kona fædd árið 1994, sem lést í bakgarði við íbúðarhús við Snorrabraut þann 9. apríl síðastliðinn, hafi verið í aðeins 500 metra fjarlægð frá bráðamóttöku Landspítalans þegar hún fór í hjartastopp. Samkvæmt heimildum Hringbrautar var stúlkan í för með ungum manni þegar hún hljóp inn í garðinn. Þrír lögreglubílar komu á vettvang og lögregluþjónar fóru á eftir stúlkunni sem var í miklu ójafnvægi. Þar reyndu þrír til fjórir lögregluþjónar að yfirbuga stúlkuna. Stúlkan var afar smágerð og í geðrofi vegna neyslu að sögn foreldra hennar. Harkaleg átök áttu sér víst stað og vöknuðu íbúar í grennd við lætin. Eftir að lögregluþjónarnir yfirbuguðu stúlkuna fór hún í hjartastopp.

Lögregluþjónarnir hófu þá endurlífgun og um leið var kallað eftir sjúkrabíl. Sjúkrabíll kom sex mínútum síðar á vettvang. Þar reyndu sjúkraflutningamenn endurlífgun með hjartastuðtæki. Um tuttugu mínútum eftir að lögregluþjónar yfirbuguðu stúlkuna var hún flutt úr garðinum. Lögregluþjónarnir ávörpuðu stúlkuna ítrekað með röngu nafni og töldu að hún héti Ester, sem er rangt. Svo virðist sem lögreglumenn á staðnum hafi talið að þeir ættu í samskiptum við aðra manneskju.

Í frétt RÚV um málið segir að stúlkan hafi verið í hjartastoppi í 40 mínútur. Samkvæmt öruggum heimildum Hringbrautar var hún frá því hún hljóp inn í garðinn við Snorrabraut þar í 20 mínútur en garðurinn er eins og áður segir í um 500 metra fjarlægð frá gjörgæsludeild Landspítalans. Sé það rétt sem kemur fram í frétt RÚV að stúlkan hafi verið í hjartastoppi í um 40 mínútur, hefur hún verið í sjúkrabíl í 20 mínútur eftir að hún var flutt úr garðinum.

\"\"

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að foreldrar stúlkunnar höfðu gagnrýnt afskipti lögreglu og talið að ekki hefði verið beitt réttum aðferðum. Þá hefði liðið of langur tími þar sem dóttir þeirra hefði verið látin afskiptalaus í hjartastoppi. Samkvæmt heimildum Hringbrautar hófu lögregluþjónar sem voru þrír til fjórir og reyndu fyrst að yfirbuga stúlkuna strax endurlífgun þegar ljóst var að stúlkan hafði farið í hjartastopp. Þá segir í frétt á vef Morgunblaðsins að stúlkan hafi verið handjárnuð á höndum og fótum. Heimildarmenn Hringbrautar telja að svo hafi ekki verið. 

Stúlkan, sem var 25 ára gömul, hafði verið í eiturlyfjaneyslu en hún byrjaði seint í fíkniefnum, 22 ára gömul. Hún hafði ítrekað reynt að hætta neyslu og var án fíkniefna í hálft ár í fyrra. Þá sagði einn heimildarmaður Hringbrautar að stutt sé síðan hann rakst á hana á AA-fundi. Foreldrar stúlkunnar segja að stúlkan hafi verið í geðrofi og það hafi fyrst gerst mánuði áður.

Á spítalanum kom í ljós að stúlkan hafði hlotið mikinn heilaskaða vegna súrefnisskorts og lést hún um morguninn. Þegar foreldrar stúlkunnar komu á vettvang var stúlkan í öndunarvél, en var í raun látin. Er það skoðun foreldra stúlkunnar að lögregla hefði frekar átt að sprauta hana niður.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að tveir lögreglumenn voru sakborningar í málinu sem nú hefur verið fellt niður.  Í skýrslu réttarmeinarfræðings segir að aðgerðir lögreglu hafi átt umtalsverðan þátt í dauða konunnar.

Þá segir einnig í skýrslu réttarmeinarfræðings að þegar átökin við lögreglu hafi staðið yfir hafi konan verið með óráði vegna fíkniefnaneyslu. Líkamlegt álag hafi aukist til muna vegna átaka við lögreglu. Þvinguð lega hennar á grúfu við handtökuna, með þrýstingi á brjótstkassa í langan tíma, gæti hafa hamlað öndunargetu hennar. Saman geti þessir þættir hafa leitt til dauða hennar. Þá sagði vitni sem horfði á aðfarir lögreglu í gegnum gluggann að þeir hefðu haldið henna niðri á “mjög aggresívan” hátt. Átökin áttu sér stað beint fyrir utan glugga hennar.

Í fréttum Stöðvar 2 kemur fram að lögreglumennirnir voru látnir sviðsetja handtökuna. Þeir sem annast kennslu lögreglumanna voru meðal viðstaddra og var það mat þeirra að viðurkenndum handtökuaðferðum hafi verið beitt. Réttarmeinafræðingurinn var einnig viðstaddur sviðsetninguna og skilaði viðbótaráliti og var niðurstaðan afgerandi. Þar er staðhæft að aðgerðir lögreglu hafi átt umtalsverðan þátt í dauða konunnar. Þvinguð lega hennar hafi haft áhrif á öndunargetu.

Foreldrarnir eru afar ósáttir við niðurstöðuna og hafa kært ákvörðunina til ríkissaksóknara. 

Myrtur með belti í fangaklefa

DV.is greindi frá því fyrir um tveimur árum að þann 19. júlí 1977 hafi Hrafn Jónsson, 49 ára málarameistari, verið myrtur í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Hrafn var mjög drukkinn og því ákvað lögreglan að láta hann sofa úr sér í klefanum ásamt öðrum manni í svipuðu ástandi. Klukkutíma síðar bættust tveir menn til viðbótar í klefann, Grétar Vilhjálmsson og Guðmundur Antonsson.

\"\"

Hrafn Jónsson

Fjórmenningarnir voru allir góðkunningjar lögreglunnar og voru vistaðir saman í svokölluðum „almenning“ klefa en ekki einmenningsklefa, þar sem enginn þeirra var þekktur fyrir ofbeldisfulla eða ofstopafulla hegðun. Annað kom þó á daginn, þar sem Hrafn lést skömmu eftir að Grétar og Guðmundur komu inn í klefann.

Grétar og Guðmundur viðurkenndu að hafa barið Hrafn ítrekað í andlitið með hnefunum, brugðið belti Guðmundar utan um háls hans og rykkt í. Krufning leiddi í ljós að áverkinn á hálsinum eftir beltið hefði leitt til dauða hans. Fjórða manninum, sem svaf af sér alla árásina, var sleppt eftir skýrslutöku.

Grétar og Guðmundur gáfu ekki neinar skýringar á árásinni. Þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og látnir gangast undir geðrannsókn. Þann 6. desember þetta 1977 voru þeir dæmdir í sakadómi Reykjavíkur, enda þótti sannað að þeir hefðu banað Hrafni. Þó var það metið svo að andlegur þroski þeirra og geðheilbrigði væri svo ábótavant að fangelsisrefsing væri tilgangslaus. Þeir voru því dæmdir til að greiða sakarkostnað og vistaðir á viðeigandi stofnun.

\"\"

Dagblaðið fjallaði um málið á sínum tíma og benti á að reglum fangelsisins hafi ekki verið framfylgt. Gæslumaður í fangelsinu við Hverfisgötu sagði í viðtali við Dagblaðið: „Handteknir menn, sem þarf að fangelsa, skulu sviptir þeim hlutum, sem þeir geta unnið sjálfum sér eða öðrum tjón með. Belti og axlabönd eru meðal þeirra hluta.“

Hengdi sig með belti

Dagblaðið greindi einnig frá því að rúmu ári eftir morðið á Hrafni Jónssyni hafi maður á þrítugsaldri fundist látinn í fangaklefa sínum í sama fangelsi. Hafði hann hengt sig með belti sínu.

\"\"

Drukknaði í eigin ælu

Í umfjöllun DV.is er einnig minnst á fleiri mál, t.d. þegar ölvaður maður var handtekinn í Breiðholti og fannst svo látinn í fangaklefa eftir að hafa drukknað í eigin ælu.

Í grein í Helgarpóstinum í desember árið 1983 gagnrýndu Hallgrímur Thorsteinsson og Egill Helgason þennan fjölda mála sem komu upp í lok 8. og upphafi 9. áratugarins, þar sem lögreglumenn framfylgdu ekki reglum lögreglunnar eða beittu harðræði.

\"\"

Á þessum tíma þorðu fáir að kæra harðræði eða sinnuleysi lögreglunnar. „Fáir hafa aðstöðu og bein í nefinu til að kæra lögregluna og fylgja kærunni á leiðarenda. Það reynir á þolrifin að sitja undir rógi lögreglunnar, lögmanna hennar og klappliðs hennar. Frá sjónarhóli þessara aðila gera lögreglumenn aldrei neitt rangt í starfi. Þeir eru varðir gegnum þykkt og þunnt, allt fram í rauðan dauðann. Þetta stuðlar að ákveðinni hóphvöt, sem lýsa má á þann hátt að hér erum við, vaktin sem stendur saman, en þarna úti í umheiminum er pakkið, fyllibytturnar, þrasararnir, blaðamennirnir og aðrir óvinir okkar, vaktarinnar,“ skrifaði Jónas Kristjánsson í leiðara í DV árið 1985.

Féll út um glugga

Í úttekt DV.is er einnig minnst á mál sem varð Bubba Morthens innblástur þegar hann samdi textann við lag sitt Lög og regla, sem kom út árið 1983 á plötu hans, Línudans. Textinn var saminn eftir fréttaflutning af fanga sem átti að hafa dottið út um glugga á meðan yfirheyrslu stóð. Að sögn Bubba hafi þó enginn innan lögreglunnar viljað bera ábyrgð á því að það hafi gerst.

\"\"

Á textablaði plötunnar, sem inniheldur útskýringu á textanum við lagið segir:

„Menn hafa dáið í yfirheyrslum og í fangaklefum um allan heim, sumir af eðlilegum orsökum. En þannig er það nú, að það er erfitt að sækja kerfið til saka, þegar það hefur brotið af sér, og í flestum tilvikum hafa menn, sem reynt hafa að sækja lögregluna til saka, tapað þeim málum.“