Langvarandi „blackout“ merki um tímabundna heilabilun

„„Blackout“ eða minnisleysi vegna áfengisdrykkju er vegna alvarlegrar starfssemistruflunar í minnisstöðvum heilans. Ef slíkt ástand hefur varað í einn eða fleiri sólarhringa er það alvarlegt merki um tímabundna heilabilun. Ástæður eru yfirleitt mjög mikil áfengisneysla eða langvinnt áfengisvandamál.“ Þetta ritar Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir hjá Forvörnum ehf. á Facebook síðu fyrirtækisins.

Leiða má að því líkum að Ólafur Þór hafi fundið sig knúinn til að útskýra þetta í kjölfar viðtals Lindu Blöndal við Gunnar Braga Sveinsson, þingmann Miðflokksins, í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld. Þar segist Gunnar Bragi ekki muna neitt frá því að hann hafi komið á Klaustur bar að kvöldi 20. nóvember síðastliðins og einum og hálfum sólarhring eftir það. Hann hafi m.a. týnt fötunum sínum og farið í algjört „blackout.“

„Einstaklingur með slík einkenni er ekki vinnufær. Ef hann gegndi ábyrgðarstarfi, sem t.d. flugstjóri, væri hann sendur í langt veikindaleyfi og kæmi ekki til vinnu fyrr en eftir ítarlegar rannsóknir og áfengismeðferð,“ bætir Ólafur Þór við.

Eyjan.DV.is greinir frá því og vísar til vefsíðu Alþingis að Gunnar Bragi hafi ekki mætt til þingfundar daginn eftir drykkjuna á Klaustur bar og að hann hafi ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslum né nefndarfundum fyrr en eftir hádegi þann 22. nóvember.

DV ræddi einnig við Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi formann SÁÁ og fyrrverandi yfirlæknir á Vogi, sem sagði það mögulegt að fara í 36 klukkustunda óminni, eða „blackout,” í kjölfar áfengisneyslu.