Kynntist fyrrverandi eiginmanni sínum þegar hún skildi við hann: „ég bara hitti annan mann“

Elísabet Reynisdóttir, næringarfræðingur, segist ekki hafa kynnst fyrrverandi eiginmanni sínum fyrr en þau skildu. Hún segir skilnaðinn í raun hafa verið einstakan og að fyrrverandi eiginmaður hennar hafi verið hennar stoð og stytta í gegnum ferlið.

„Ég veit ekki hversu fallega maður getur talað um skilnað því hann er alltaf sár. Það voru komnir brestir hjá okkur og eitthvað sem okkur greindi á með. Það kom upp sú hugmynd að við myndum skilja en við vorum á réttri leið. Ég kannski vissi að við myndum skilja en það var kannski til að hugga mig. En ég bara hitti annan mann,“ sagði Elísabet í viðtali við Völu Matt í Ísland í dag á Stöð tvö í gærkvöldi.

Ástæða skilnaðarins varð vegna þess að Elísabet varð ástfangin af öðrum manni, þrátt fyrir að vera ekki búin að klára hjónaband sitt.

„Ég var samt mjög heiðarleg við manninn minn og talaði strax við hann, um að tilfinningar mínar voru orðnar of flæktar,“ sagði Elísabet og viðurkennir að nýja sambandið hafi ekki enst lengi.

Eyddi jólunum með fyrrverandi eiginmanninum

Elísabet bað um skilnað í ágúst og var nýja sambandi hennar lokið í desember sama ár.

„Það sagði við mig ein kona að þú kynnist aldrei manninum þínum eins vel og þegar þú skilur við hann og ég sannarlega kynntist mínum fyrrverandi þegar við skiljum,“ segir hún og bætir við: „Minn fyrrverandi býr á Húsavík og kom í bæinn fyrir jólin. Þá sá hann ástandið á mér og sagði strax við mig, þú ert að koma um jólin til mín. Þið og börnin, þið komið.“

Viðtalið við Elísabetu má sjá í heild sinni hér fyrir neðan: