Kvöldið sem gummi lést var hræðilegt

\"\"Dagur 187 - Guðmundur Örn Guðbjartsson.

Síðastliðið sumar kom ég öðru sinni í lífinu til Tenerife og í þetta sinn til lengri dvalar. Einhvern fyrstu dagana frétti ég að til stæði að opna íslenskan bar í Los Cristianos, einungis í örfárra mínútna fjarlægð að heiman frá mér.

Ég rölti þangað og hitti fyrir væntanlegan rekstrarstjóra Barsins og við áttum stutt samtal og skemmtilegt þar sem hann nefndi slæleg vinnubrögð innfæddra við að innrétta Bar-Inn að sinni hugmynd, en jafnframt var þetta í fyrsta sinn sem ég hitti Gumma. Ingu konu hans hitti ég svo í fyrsta sinn nokkrum dögum síðar úti í Nostalgíu. Í báðum tilfellum varð þetta vinátta við fyrstu kynni.

Þegar Bar-Inn opnaði loksins 28. september 2019 var ég að sjálfsögðu meðal fyrstu gestanna og hefi verið fastagestur allar götur síðan. Gummi sá um að bera í mig bjórinn, hvítvínið og sódavatnið, Inga fór með mér í verslunarmiðstöðvarnar.

Gamlárskvöldi varði ég með þeim yfir veislumat og Áramótaskaupi áður en gengið var niður á strönd og áramótum fagnað.

Kvöldið sem Gummi lést var hræðilegt, auðvitað langverst fyrir Ingu en einnig virkilega erfitt fyrir okkur hin sem vorum hjá henni þetta kvöld, að fylgjast með sjúkraliði stumrandi yfir Gumma, síðan lögreglu og rannsóknaraðila og enginn opinber aðili hafði rænu á að styðja Ingu á einni af erfiðustu stund lífs hennar nema kannski fáeinir vinir þeirra sambýlinganna sem reyndum okkar besta en gátum lítið annað gert í vanmætti okkar en að halda í hönd hennar og bjóða fram öxl til að gráta við.

Úr fjarlægð mun ég deila útför Gumma í nánu samneyti við tvær kisur þeirra Ingu, Knúsu og Klóa, veita þeim aukaskammt af harðfiski og senda fallegar hugsanir og samúðarkveðjur yfir hafið og heim.