Kristján sindri er samkynhneigður og stundar „karlrembusport“: „hræðslan við fordómana er meiri en fordómarnir sjálfir“

Kristján Sindri Níelsson hefur getið sér gott orð sem aflraunamaður hérlendis síðustu ár. Stefnir hann að því að keppa um titilinn Sterkasti maður heims og er hann einn af örfáum íslenskum karlkyns íþróttamönnum sem hefur komið út úr skápnum.

Kristján segist í viðtali við Rúv pæla afskaplega lítið í þeirri staðreynd enda sjái hann það ekki sem hæfileika að vera samkynhneigður.

„Ég kom út úr skápnum þegar ég var 17 ára sem hefur þá verið árið 2011,“ segir Kristján og segist hann aldrei hafa fundið fyrir fordómum í sinn garð.

„Mér líður í raun eins og öllum sé bara drullusama. Það hefur enginn nefnt við mig hvað ég sé samkynhneigður. Einhverjir hafa minnst á það og að þetta sé nokkuð óhefðbundið en það er aldrei nein illkvittni í því. Eflaust eru margir sem verða fyrir fordómum og það er leiðinlegt, en ég hef persónulega aldrei upplifað þá. Ég hef verið í mestu „karlrembusportum“ sem hægt er að fara í og aldrei upplifað neitt vont. Það fylgir þessu stundum djók og grín en ég upplifi mig bara ekki sem fórnarlamb. Djók og grín með félögunum er bara djók og grín,“ segir Kristján.

Telur hann að fordómar og hræðsla við fordóma sé meðal annars ástæðan fyrir því að fáir íþróttamenn koma út úr skápnum.

„Það eru eflaust fordómar til en hræðslan við fordómana er meiri en fordómarnir sjálfir.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Kristján í heild sinni á vef Rúv með því að smella hér.