Kristinn hættur í Sjálfstæðisflokknum: Í flokknum í tugi ára en hefur fengið nóg - „Ekkert annað í stöðunni en að segja bless“

Kristinn hættur í Sjálfstæðisflokknum: Í flokknum í tugi ára en hefur fengið nóg - „Ekkert annað í stöðunni en að segja bless“

Kristinn Aðalsteinsson, fjárfestir á Eskifirði, hefur sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum og gengið til liðs við Miðflokkinn. Hann hefur verið Sjálfstæðismaður frá blautu barnsbeini en segir að nú sé honum öllum lokið.

„Ég hef verið félagi í Sjálfstæðisflokknum alveg frá blautu barnsbeini og fyrir mér hefur pólitíkin verið einskonar trúarbrögð, en eftir atburði undanfarinna daga og vikna er mér eiginlega bara öllum lokið,“ segir Kristinn í samtali við Viljann.

Kristinn bjó um nokkurra ára skeið í Bretlandi og fylgdist vel með pólitíkinni þar. Hann endurheimti nýverið kosningarétt sinn eftir að hafa flust aftur á heimaslóðir skömmu fyrir síðustu áramót. Endurheimt kosningaréttarins vakti hann til umhugsunar um lýðræðislega skyldu hvers og eins.

Kristinn segist sjá mikla samsvörun milli deilunnar um þriðja orkupakkann hér á landi og deilunnar í Bretlandi vegna fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, Brexit. Honum þykir Evrópusambandið vera stórt og ólýðræðislegt bákn sem vilji öllu ráða.

„Þegar kom að deilunni um orkupakkann hér heima fannst mér mikil samsvörun í þessum málum. Að við Íslendingar séum að afsala okkur rétti til að ráða hagsmunum okkar sjálf og alltaf er bent á andlitslausa aðila í Brussel sem hafi ákveðið hitt og þetta og ekki sé annað að gera en hlýða því,“ segir hann.

Kristinn segir ákvörðunina hafa verið óumflýjanlega. „Ég átti aldrei von á því að sá dagur kæmi að ég yfirgæfi Sjálfstæðisflokkinn. En mér finnst eiginlega að hann hafi yfirgefið mig og tekið upp stefnu einhvers allt annars flokks. Svo þá var ekkert annað í stöðunni en að segja bless.“

Hann kveðst ekki hafa neitt á móti Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, en að þeir deili ekki lengur hugmyndafræði. „Þetta er ekkert persónulegt, en alls staðar þar sem ég fer, segir fólk það sama og ég skynja mikla óánægjubylgju meðal sjálfstæðismanna sem á eftir að koma fram.“

Nýjast