Kötturinn loki teflir við sjálfan sig - opnar hurðar og sækir dót - myndband

Guðlaug Svava fékk köttinn Loka til sín árið 2017 þegar hann var aðeins fimm vikna gamall. Móðir hans hafði afneitað honum og systkinum hans.

„Mamman er norsk skógarkisa en við vitum ekkert um pabbann. Sonur minn sem er 12 ára í dag átti á þessum tíma við mikinn kvíða að etja sem og samskiptavanda sem fylgir oft einhverfurófi, sem hann er greindur með,“ segir Guðlaug í samtali við Hringbraut.

Sonur Guðlaugar og Loki urðu strax bestu vinir og tók Loki algjöru ástfóstri við syni hennar.

„Loki gerir allt það sama og hann. Fær sér morgunmat með honum, reynir að komast í bað með honum sem hefur stundum tekist, leggst á bækurnar hjá honum þegar hann er að lesa og læra og harðneitar að sofa annars staðar en inni hjá honum og ef það er lokað þá opnar hann bara hurðina sjálfur, enda mjög langur þegar hann stendur upp á annan endann,“ segir Guðlaug.

Loki er inniköttur sem fær að fara út í garð í bandi og segir Guðlaug hann einstakan karakter.

„Hann kann að sækja dót sem kastað er og kemur alltaf með það aftur. Þessi köttur er alveg ótrúlegur karakter og hefur annað fólk sem ég hef talað við sjaldan kynnst eins fyndnum ketti sem nánast lítur á sjálfan sig sem mann.“

Loki tefldi við sjálfan sig

Á dögunum náði Guðlaug skemmtilegu myndbandi af Loka þar sem hann sat og tefldi við sjálfan sig.

„Ástæðan fyrir því að hann fór að tefla þarna var vegna þess að sonur minn hafði setið lengi yfir þessu um kvöldið og kisi fylgdist náið með allan tímann. Svo þegar sonur minn stóð upp frá taflborðinu byrjaði Loki að prófa sig áfram,“ segir Guðlaug um myndbandið skemmtilega.

Segir hún fjölskylduna ekki geta hugsað sér lífið án Loka þrátt fyrir að hann geti verið alger óþægðarangi.