Illugi: konan settist grátandi á gangstéttina með köttinn sinn í fanginu - skömmuð því hún væri að þvælast fyrir

„Hér við Amtmannsstíginn var verið að drepa kött. Bíll spændi á fullri ferð niður götuna og stoppaði ekki einu sinni þegar hann keyrði á fallegan mislitan kött sem býr hér skammt frá. Þannig keyra sumir ökumenn niður götuna. Betra var hjartalag ungs manns sem stoppaði og klappaði kettinum meðan hann dó, og hringdi svo í lögregluna og eigandann.“

Þetta segir Illugi Jökulsson rithöfundur á Facebook. Hann kallar eftir því að gripið verði til aðgerða á Amtmannsstíg og beinir orðum sínum til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og vill að settar verði aftur upp hraðahindranir sem voru á svæðinu til skamms tíma. Þá segir Illugi að bílstjóri hafi verið ósáttur að eigandinn, kona sem var að syrgja dýrið, væri að þvælast fyrir á götunni. Illugi heldur áfram:

„Nokkru seinna var konan sem á köttinn að bera hann dáinn af götunni og þá kom annar bíll sem urraði frekjulega af því fólk var að þvælast fyrir honum, og svo gaf bílstjórinn rösklega í með háum vélarhljóðum og handapati þegar konan var sest grátandi á gangstéttina með köttinn sinn í fanginu.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri svarar svo Illuga og segir: „Leiðinlegt og sorglegt að heyra - erum að skoða þessi hraðamál í íbúðahverfum.“