Kerfisbundnar skynjunarvillur draga úr árangri krabbameinsleitar

Þeir sem skoða röntgenmyndir eða sneiðmyndir missa oft af einkennum um sjúkdóma á borð við krabbamein í heila eða í brjóstum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Árni Kristjánsson, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands, hefur leitt ásamt þeim Mauro Manassi og David Whitney við Kaliforníuháskóla í Berkeley.

Niðurstaðan var birt í vísindatímaritinu Scientific Reports, sem gefið er út af Nature, núna í vikunni. Rannsókn þeirra sýnir hvernig kerfisbundnar skynjunarvillur geta komið fram hjá þeim sem skoða reglulega röntgenmyndir, t.d. vegna gruns um ýmiss konar krabbamein. Vísindamennirnir hafa sjálfir hugmyndir um hvernig unnt er að bæta verklag við slíkar skoðanir.