Keisarinn var ekki í neinum fötum frekar en ríkisstjórn íslands

Framlag ríkisstjórnar til lausnar kjaradeilunni er að mörgu leyti rýrt og byggt á blekkingum. Þetta er að koma æ betur í ljós eftir því sem meiri upplýsingar koma fram og sýnt er á fleiri spil.

Það er eins og til hafi orðið eins konar skjallbandalag milli ríkisstjórnarinnar og aðila á vinnumarkaði þar sem samið hafi verið um að allir töluðu um að samningarnir og tengdar ráðstafanir stjórnvalda væru “æði” eins og unglingarnir myndu segja.

Fundið var söluvænlegt nafn á gjörninginn, “lífskjarasamningur”. Væntanlega hefur einhver auglýsingastofa lagt það til! Einn verkalýðsforinginn gekk svo langt að halda því fram að þjóðarsáttin frá árinu 1990 stæðist ekki samjöfnuð við þetta.
Og hann var ekki að grínast! 

Fyrir þá sem ekki muna svo langt aftur er rétt að rifja upp að þjóðarsáttin vann bug á 90% verðbólgu sem var á góðri leið með að sökkva samfélaginu. Það er mesta afrek allra tíma á íslenskum vinnumarkaði, afrek sem aldrei verður bætt.

Verkalýðsleiðtogar sem höfðu lofað baklandi sínu 40% launahækkun strax, náðu fram 1-2% launahækkun núna og svo lítilsháttar hækkunum næstu 3 árin. Það er góð niðurstaða fyrir atvinnulífið en enginn árangur hjá verkalýðsforystunni sem stendur berskjölduð og hlægileg eftir. Orð og efndir fara hreint ekki saman.

Það sem ríkisstjórnin hefur fram að færa er mun minna en af er látið og sumt mun ekki hjálpa til. Þannig má gera ráð fyrir að framlög ríkisins til húsnæðiskaupa muni spenna upp verð á íbúðarhúsnæði, eins og raunin var árið 2004, og gera stöðu hinna verst settu enn verri. Þá er sú aðferð að ætla að knýja seðlabankann til vaxtalækkunar afturhvarf til úreltra vinnubragða sem horfið var frá fyrir 35 árum. Vegið er að sjálfstæði seðlabankans.

Þá er óskiljanlegt að reynt sé að túlka hömlur á veitingu verðtryggðra lána til 40 ára sem aðstoð við íbúðakaupendur. Áhrifin eru þveröfug, þrengja kosti lántakenda og bera vott um forræðishyggju. Það þarf að hafa vit fyrir fólkinu sem kann ekki fótum sínum forráð! Við eru víst öll svo vitlaus!

Meintar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar einkennast af blekkingum og innantómu orðagjálfri forsætisráðherra öðrum fremur.

Það mun koma enn betur í ljós að Katrín er ekki í neinum fötum frekar en keisarinn í ævintýrinu. Við þurfum bara að bíða eftir einlægu barni sem bendir okkur á það.