Katrín jakobsdóttir skríður fyrir þeim stóru og afhjúpar snobbáráttu

Raunarlegt er að fylgjast með tilburðum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hún hefur lítil tök á ríkisstjórninni og hefur þurft að brjóta mörg grundvallarlögmál og loforð Vinstri grænna til að geta haldið í ráðherrastól sinn og allt það tildur sem honum fylgir. Það virðist vera það eina sem hún hugsar um. Besta nýlega dæmið um svik Vinstri grænna við flokkssamþykktir sínar og stefnumál er að Katrín skuli láta það eftir útsendurum Kristjáns Loftssonar í ríkisstjórninni að halda áfram hvaladrápi við Ísland þó svo flokkur hennar hafi samþykkt á flokksþingi þá stefnu að hætta alveg hvaladrápi. Fjölmargt annað mætti nefna en hvalamálið er nýlegt og einfalt þar sem Kartín svíkur flokk sinn og stefnumið án þess að hika. Ráðherrastóll hennar hefur forgang.

Einnig hefur vakið athygli hvað þessi formaður Vinstri grænna virðist hafa mikla löngun til að skríða fyrir forystumönnum stórþjóðanna. Er Katrín svona upptekin af snobbi og fordild? Í byrjun þessa mánaðar fór hún í „opinbera heimsókn“ til Bretlandseyja og fékk meðal annars áheyrn í nokkrar mínútur hjá Theresu May forsætisráðherra Bretlands. Hvaða tilgangi þjónar að forsætisráðherra dvergríkisins Íslands fari í „opinbera heimsókn“ til stórþjóðarinnar Bretlands? Hér er ekkert annað á ferðinni en mont og uppskafningsháttur fólks sem annað hvort þjáist af mikilmennskubrjálæði eða svona mikilli minnimáttarkennd. Það gleymist að við erum bara 350 þúsund manna þjóð. Bolton sem er útbær Liverpool telur einmitt um 350 þúsund manns. Skyldi bæjarstjórinn í Bolton fara í “opinbera heimsókn“ til London að hitta Theresu May? Alveg örugglega ekki.

Í fréttum af heimsókn Katrínar var mikil lagt upp úr „viðræðum“ hennar og Theresu. Katrín taldi upp fjölda málaflokka sem þær hefðu „rætt um“. Svo sem flóttamannavandann í Evrópu, Brexit, loftslagsmál umheimsins, jafnréttismál kynjanna og viðskipti Íslands og Bretlands. Heimsókn Katrínar stóð yfir í tæpan hálftíma. Þar af fóru nokkrar mínútur í að taka myndir af þeim stöllum og svo fóru „viðræðurnar“ fram um alla þessa stóru málaflokka – í svona korter! Það hafa aldeilis verið djúpar og innihaldsríkar „viðræður“. Hér er um að ræða kjánalega sýndarmennsku sem engu skilar nema myndum í fjölskyldualbúm Katrínar Jakobsdóttur. Þetta er að verða ágætt albúm hjá henni því nú á hún myndir af sér með Merkel, Trump, framkvæmdastjóra NATO og Theresu May. Fer þetta ekki að verða gott?

Nóg er af vandamálum hér heima sem Katrín ætti frekar að reyna að sinna. En hún velur flótta yfir í sýndarveruleika af þessu tagi. Meðal þess sem hefur bjátað á undanfarið er m.a. klúðrið vegna Landsdóms sem leiddi til þess að Sigríður Andersen var rekin úr ríkisstjórninni, illdeilur vegna þriðja orkupakkans, átök vegna innflutnings á hráu kjöti, ákvarðanir um hvalveiðar sem verða leyfðar þvert á stefnu Vinstri grænna og svo á eftir að afgreiða fjármálaáætlun ríkisins sem lögð hefur verið fram og stenst engan veginn. Þá getur það varla glatt formann Vinstri grænna að fylgi flokks hennar hefur hrunið ef marka má skoðanakannanir. Flokkurinn hefur misst um 40% af fylgi sínu frá síðustu kosningum. Meira en þriðji hver kjósandi er horfinn. Varla gleður það þó henni þyki gott að hossa sér í mjúkum ráðherrastólnum.

Loks má nefna að yfir Vinstri grænum hangir sú ógn að hinir ríkisstjórnarflokkarnir ýti þeim út úr ríkisstjórninni og taki Miðflokkinn í þeirra stað inn í ríkisstjórnina. Þeir hafa nægan þingstyrk til þess.

Áður en það gerist vill Katrín Jakobsdóttir safna sem flestum myndum af sér með stórmennum. Nú liggur á. Engan tíma má missa!