Karl og sigríður fá fimm milljónir í bætur vegna andláts nóa hrafns

„Þetta er bara ótrúlega hrokafullt og stórhættulegt og olli dauða barnsins okkar.“

Þetta sagði Sigríður Eyrún Friðriksdóttir sem varð fyrir því í ársbyrjun 2015 að missa son sinn, Nóa Hrafn vegna mistaka starfsfólks á Landspítalanum. Sigríður og eiginmaður hennar, Karl Olgeir Olgeirsson, eignuðust Nóa Hrafn í janúar árið 2014. Hann lést skömmu eftir fæðinguna. Ríkið hefur nú ákveðið að greiða Sigríði og Karli fimm milljónir í miskabætur auk málskostnaðar. Málið hefur verið á borði ríkislögmanns í fjögur ár. RÚV greinir frá og hefur eftir hjónunum að mestu máli skipti að mistökin hafi verið viðurkennd.

Kastljós fjallaði ítarlega um mál Karls og Sigríðar en í þeirri umfjöllun var greint frá því að fljótlega hafi komið í ljós að fyrirstaða væri í fæðingarveginum.  Það gerði það að verkum að fæðingin gekk erfiðlega.

Sigríður sagði í samtali við RÚV.

„Ég byrjaði að biðja um keisara, hvort sem það hefði verið keisari eða hvað. Ég var bara að biðja um hjálp.“

Þrátt fyrir þetta var ekki kallað til lækni. Sigríður sagði einnig:

„Við erum inni á spítala. Það er ekki eins og við höfum verið einhvers staðar uppi í sveit, einhvers staðar þar sem var ekki hægt að ná í lækni. Hann var í næsta herbergi. Það var aldrei kallað á hann.“

Þá áttu sér stað vaktaskipti á meðan fæðingin stóð yfir og sú ljósmóðir sem tók við sá fljótlega að ekki væri allt með felldu. Sigríður sagði:

„Klukkutíma eftir að hún mætir í vinnuna var hann dáinn.“

Á vef RÚV segir að Landlæknir hafi úrskurðað að vanræksla ljósmæðra og sérfræðilæknis hafi haft þessar afleiðingar í för með sér, að Nói lést. Gekkst spítalinn við mistökum starfsfólksins.