Kári stefánsson um samherjamálið: „hefur valdið íslensku samfélagi alveg ómælanlegum skaða“

„Mér finnast viðbrögð stjórnvalda vera heldur máttleysisleg. En ég er ekki alveg sammála Ögmundi um hvað séu eðlilegustu viðbrögðin við þessu. Ég held því fram að þetta reynist allt saman vera satt, þá er um að ræða fyrirtæki sem hefur verið ekki bara verið rekið á svig við lög, heldur líka rekið á svig við almennt siðferði og hefur valdið íslensku samfélagi alveg ómælanlegum skaða.“

Þetta sagði Kári Stefánsson í frétta og umræðuþættinum 21 hér á Hringbraut, en hann og Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, ræddu þar Samherjamálið. Kári sagði jafnframt að það væri alveg óvíst Íslendingum takist nokkurn tímann aftur að vinna orðspor Íslands aftur til baka.

„Til dæmis markaðssetning á sjávarafurða frá Íslandi inn í bestu verslanir beggja vegna Atlantshafsins, hafa byggst meðal annars á því að okkar sjávarfang sé unnið af fólki sem er strangheiðarlegt, þetta komi frá stað sem er svona svolítið utan við spillingu alheimsins og nú er það allt saman farið. Það er alveg óvíst að okkur takist nokkurn tímann að vinna það til baka.“

Hér að neðan má sjá viðtal við Ögmund og Kára í heild sinni.