Jón atli verður rektor háskóla íslands næstu fimm ár - eingöngu ein umsókn barst

Háskólaráð samþykkti á fundi sínum í dag að tilnefna Jón Atla Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, í embætti rektors Háskóla Íslands til næstu fimm ára. Jón Atli hefur gegnt embættinu frá árinu 2015. Embætti rektors Háskóla Íslands var auglýst laust til umsóknar í desember og rann umsóknarfrestur út 3. janúar síðastliðinn. Ein umsókn barst um embættið, frá Jóni Atla Benediktssyni.

Sérstök undirnefnd háskólaráðs metur hvort umsækjendur um starf rektors uppfylli sett skilyrði um embættisgengi. Háskólaráð ákvað á fundi sínum í dag að rita mennta- og menningarmálaráðherra bréf og tilnefna Jón Atla Benediktsson sem rektor Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1. júlí 2020 til 30. júní 2025.

Jón Atli Benediktsson var kjörinn rektor Háskóla Íslands í almennri kosningu starfsmanna og stúdenta við skólann vorið 2015 og tók formlega við embætti þann 1. júlí það ár. Hann er sá 29. í röðinni sem gegnir embættinu frá því að Háskóli Íslands tók til starfa árið 1911. Jón Atli lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1984 og ári síðar hóf hann nám við Purdue-háskóla í Indiana í Bandaríkjunum og lauk þaðan meistaraprófi 1987 og doktorsprófi í rafmagnsverkfræði 1990.

Jón Atli hóf störf sem lektor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands árið 1991 en árið 1994 fékk hann framgang í starf dósents og í starf prófessors árið 1996. Hann var aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands og forstöðumaður Miðstöðvar framhaldsnáms frá árunum 2009-2015, formaður vísindanefndar háskólaráðs á árunum 1999-2005 og formaður gæðanefndar háskólaráðs 2006-2015.

Jón Atli er einn afkastamesti vísindamaður Háskólans. Meginrannsóknasvið hans eru fjarkönnun, stafræn myndgreining og merkjafræði. Hann er höfundur meira en 400 fræðigreina og bókarkafla. Þá hefur Jón Atli fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar, bæði innan lands og utan. Jón Atli hefur verið virkur í nýsköpun og stofnaði m.a. sprotafyrirtækið Oxymap ásamt Einar Stefánssyni prófessor í augnlækningum og fleirum. Hann hefur enn fremur verið gestaprófessor við háskóla á Ítalíu, Englandi og Kína auk þess að vera gistivísindamaður við Joint Research Centre, Ispra á Ítalíu. Hann var forseti IEEE Geoscience and Remote Sensing Society á árunum 2011 og 2012. Jón Atli var aðalritstjóri ISI ritsins IEEE Transactions on Geoscience and Remote Sensing 2003-2008 og hefur starfað sem meðritstjóri margra vísindatímarita.

Rektor Háskóla Íslands er æðsti fulltrúi skólans og talsmaður gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans. Rektor ber enn fremur ábyrgð á framkvæmd stefnu háskólans og tengslum Háskólans við innlenda og erlenda samstarfsaðila. Þá hefur hann eftirlit með allri starfsemi háskólans.