Jóhann reiður: ósmekkleg misnotkun - „hvað er eiginlega í gangi í landinu?“

„Sjálfstæðisflokkurinn með Moggann sér við hlið vill ekki mæta örlögum Sigríðar Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra með reisn og út frá hagsmunum þjóðarinnar. Örlög sem Sigríður skapaði sér hjálparlaust þegar hún sérvaldi fjóra dómara inn í Landsrétt sem voru henni þóknanlegir þvert á niðurstöður hæfisnefndar. Þar á meðal er eiginkona Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins.“

Þannig hefst pistill eftir Jóhann Þorvarðarson á Miðjunni. Jóhann sakar Sjálfstæðisflokkinn um að ráðast á Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) með ómálefnalegum og afar grófum hætti í ræðu og riti í stað þess að reyna að byggja upp traust.

„Þetta er farið að líkjast ansi mikið ráðstjórnarríki hér á Íslandi,“ segir Jóhann og bætir við: „Ekki endar þetta hér því 100 ára afmæli Hæstaréttar var misnotað til að níða skóinn undan MDE. Einstaklega ósmekkleg misnotkun á æðsta dómstól landsins.“

Jóhann telur að Sjálfstæðismenn geri sér grein fyrir að MDE muni staðfesta dóm undirréttar eða hann verði jafnvel þyngri.

„Það er meira en flokkurinn þolir. Sjálfstæðisflokkurinn á nefnilega dómskerfið með húð og hári. Þetta er einkaeign flokksins!“

Jóhann beinir síðan spjótum sínum að Katrínu Jakobsdóttur og Sigurði Inga Jóhannssyni formanni Framsóknarflokksins. Þar sé þögnin ríkjandi. Og hvað þýðir það. Svar Jóhanns er þetta:

„Forn málsháttur segir að þögn sé sama og samþykki. Sjálfstæðisflokkurinn er að ráðast að einni af grunnstoðum Íslenska lýðveldisins og forsætisráðherra er hljóður á meðan og Samgönguráðherra er þögull sem gröfin. Hvað er eiginlega í gangi í landinu?“

Þá ákallar Jóhann lögmenn á Íslandi og biðlar til þeirra að láta í sér heyra:

„Margir lögmenn sitja bara múlbundnir á sínum skrifstofum og naga sig í handarbökin. Ég ákalla lögmenn að sýna kjark og tjá sig um árásirnar á þessa stoð íslensks réttarríkis! Já, og hvar eru fræðimennirnir sem þjóðin þarf núna á að halda? Koma svo!“