Jakob Björnsson er látinn

Jakob fæddist 30. apríl 1926 var yngstur af þremur sonum Björns Guðmundar Björnssonar bónda í Fremri-Gufudal A-Barðastrandarsýslu og Sigríðar Ágústu Jónsdóttur húsfreyju. Jakob Björns­son lést á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Eir, Reykja­vík, 15. fe­brú­ar 2020. Greint er frá andláti Jakobs í Morgunblaðinu og á heimasíðu Orkustofnunar. Þar segir:

Hann lauk gagnfræðaprófi og námi við Menntaskólann á Akureyri, námi í verkfræði við HÍ árið 1950 og prófi í raforkuverkfræði frá DTH Kaupmannahöfn 1953. Hann stundaði einnig nám við Tækniháskólann í Aachen í V-Þýskalandi 1956-67.

Jakob Björnsson varð orkumálastjóri 1973 til 1996 þegar hann lét af störfum fyr­ir ald­urs sak­ir. Á árabilinu 1970-1980 komu mörg ný og krefjandi verkefni til Orkustofnunar. Þar má nefna Laxárdeiluna, undirbúning að Byggðalínu, byggingu Sigölduvirkjunar, gosið á Heimaey, gufuöflun fyrir Kröfluvirkjun og vöktun eldsumbrota í Kröflu. 

Mikil hækkun á húshitun með olíu vegna mikilla hækkunar á heimsmarkaðsverði olíu um 1973 vegna stríðsins í fyrir botni Miðjarðarhafsins, var einnig eitt af stóru verkefnunum sem komu á borð Jakobs. Húshitun með olíu var enn mikil árið 1973 og alls fóru þá 160 þús. tonn af olíuinnkaupunum í þá hitun.

jakob-bjornsson.jpg

Olíuhækkunin hafði þau áhrif að sett var opinber stefna að allir stærri þéttbýlisstaðir nytu jarðhita til húshitunar þar sem hægt væri. Verkefni Jarðhitadeildar og Jarðborana ríkisins sem heyrði undir Orkustofnun á þeim tíma, urðu fleiri og meiri en áður og hitun húsa með jarðhita jókst mikið 1970-1980 sem gerði hitun með olíu að mestu óþarfa. Þjóðhagslegur sparnaður af hitun húsa með jarðhita í stað olíu síðan 1968, er metinn að meðaltali um 65 milljarðar á ári eða um 2,6% af landsframleiðslu. Öll þessi verkefni höfðu mikil áhrif hér á landi.

Verkefni Jarðhitadeildar Orkustofnunar og Jarðborana ríkisins urðu mun meiri en nokkur dæmi voru áður um. Mikil fjölgun var því á jarðfræðingum, jarðeðlisfræðingum og efnafræðingum í starfsliði Jarðhitadeildar Orkustofnunar og aflað var nýrri mælitækja til borholumælinga en áður höfðu þekkst. Undirbúningur var einnig hafinn að byggingu Byggðalínu og hringtenging landsins komst á fullan skrið og sömuleiðis bygging Sigölduvirkjunar. Sem vísbending um umfangið, þá voru ársverk Orkustofnunar 150 árið 1982.

Jakob skrifaði ótal greinar um stóriðju, virkjanir og orkumál, á grunni fagmennsku og framsýni þar sem færð voru fagleg rök fyrir þeim atriðum sem hann benti á. Segja má að Jakob Björnsson hafi með störfum sínum leitt starf á sviði orkumála á tímum umbrota, mikilla breytinga og framfara með velgengni og farsæld fyrir þjóðina.

Árið 2005 var Jakob sæmdur viðurkenningu frá Landsvirkjun fyrir einstakt framlag til íslenskra orkumála. Jakob lifði eigin­konu sína, til 45 ára,  Jónínu Þorgeirsdóttur en hún lést 2002. Hann skilur eftir sig dóttur, stjúpson, þrjú barnabörn og 5 barnabarnabörn.  

Orkustofnun sendir fjölskyldu Jakobs Björnssonar innilegar samúðarkveðjur. 

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður skrifar:

„Ég kynnt­ist Jakobi fyrst að ráði á átt­unda ára­tugn­um í Sam­starfs­nefnd iðnaðarráðuneyt­is­ins og Nátt­úru­vernd­ar­ráðs um orku­mál (SINO) sem hóf störf 1973, sama árið og Jakob kom að Orku­stofn­un, og ent­ist nefnd­in sú í ára­tugi. Í henni voru þrír full­trú­ar frá hvor­um aðila og haldn­ir fund­ir reglu­lega enda af nógu að taka, bæði um stóriðju­hug­mynd­ir stjórn­valda, virkj­an­ir og raf­orku­flutn­ing.

Ég áttaði mig fljótt á að reiknistokk­ur­inn réð mestu um þan­ka­gang Jak­obs. Um­hverfi og nátt­úru­vernd voru hon­um fram­andi eins og mörg­um í verk­fræðinga­stétt þess tíma. Hann var hins veg­ar alltaf op­inn fyr­ir umræðu, hafði gott vald á skapi sínu og var stutt í kank­víst bros. Gaf auga­leið að teygj­ast vildi úr sam­ræðum á SINO-fund­um, sem þrátt fyr­ir allt voru afar gagn­leg­ir, vörpuðu ljósi á ágrein­ing og leiddu stund­um til mála­miðlana.

Að því kom að sá sem þetta skrif­ar færðist úr Nátt­úru­vernd­ar­ráði óvænt yfir í iðnaðarráðuneytið og var þannig orðinn eins kon­ar yf­ir­maður orku­mála­stjór­ans. Komu sér þá vel fyrri kynni, lík­lega fyr­ir báða aðila. Orku­stofn­un var þá þegar orðin fjöl­menn stofn­un, enda jarðhit­inn stór og vax­andi þátt­ur til viðbót­ar vatns­afl­inu og óvíða sýslað meira við jarðfræði af ýms­um toga en þar inn­an­húss.

Stjórn­sýsla var ekki sterk­asta hlið Jak­obs og til að bæta það upp var í góðu sam­komu­lagi sett stjórn yfir stofn­un­ina hon­um til stuðnings. Jakob var ósér­hlíf­inn og gerði eng­ar kröf­ur um eig­in kjör þannig að fá­gætt má telja. Á þess­um árum varð mik­il breyt­ing á lagaum­hverfi orku­mál­anna, m.a. með nýj­um lög­um um Lands­virkj­un 1982. Stór vinn­ing­ur í nátt­úru­vernd náðist líka í höfn með friðlýs­ingu Þjórsár­vera 1981. Marg­ir áttu hlut að því heilla­spori.

Ára­tug­ina á eft­ir lágu leiðir okk­ar Jak­obs oft sam­an á fund­um þar sem orku­mál bar á góma. Á því sviði dvaldi hug­ur hans sem fyrr og birt­ist mönn­um í ræðu og riti, því að oft mundaði hann penn­ann, m.a. und­ir­rituðum til leiðbein­ing­ar. Síðast hitt­umst við eft­ir alda­mót­in í Hallormsstaðarskógi. Hann var þar stadd­ur í sum­ar­blíðu og hélt með okk­ur áleiðis í skóg­ar­göngu. Nú er langri veg­ferð hans lokið, en mál­in sem á okk­ur brunnu frá mis­mun­andi sjón­ar­hóli eru orðin nær­göng­ulli en nokkru sinni fyrr.“

Útför Jak­obs fór fram frá Bú­staðakirkju í dag, 27. fe­brú­ar 2020, klukk­an 15.