Ísgerður ætlar ekki að biðjast afsökunar: „Það er enginn fullkominn“

Ísgerður ætlar ekki að biðjast afsökunar: „Það er enginn fullkominn“

Ísgerður Gunnarsdóttir, einn af umsjónarmönnum Krakkafrétta á RÚV, sér ekki ástæðu til að biðjast afsökunar eftir að hafa verið sökuð um ósannindi og skaðlegan áróður vegna umfjöllunar um Berlínarmúrinn. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins. Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins, skrifar leiðara í Morgunblaðið og vill að Ísgerður biðjist afsökunar á umfjöllun hennar um Berlínarmúrinn á dögunum. Í þættinum sagði Ísgerður:

„Höfuðborginni í Berlín var líka skipt í tvennt og árið 1961 var reistur múr til að aðgreina borgarhlutana. Það var líka gert til að koma í veg fyrir að fólk flyttist á milli, aðallega frá austri til vesturs.“

Friðjóni R. Friðjónssyni Sjálfstæðismanni og almannatengli var misboðið vegna málsins og sagði orðalagið væri móðgun við fólk sem var myrt af austur-þýskum starfsmönnum við að reyna að „flýtja“ frá austri til vesturs. Það hefði enginn flutt á milli borgarhlutanna, fólk hefði verið á flótta og líf þeirra í hættu.

Davíð er einnig afar ósáttur við túlkun Ísgerðar  og segir að geti Ríkisútvarpið ekki sagt „krökkum óþægilegar fréttir“ öðruvísi en með því að segja þeim ósatt, ætti það hreinlega að sleppa því

Líkt og Friðjón bendir Davíð á að margir þeirra sem reynt hafi að komast á milli borgarhluta hafi verið skotnir eða fangelsaðir. Friðjón og Davíð eru ekki einu Sjálfstæðismennirnir sem hafa gagnrýnt Ísgerði. Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins reið á vaðið og svaraði hún Birni með grein í Morgunblaðinu þar sem hún útskýrði að það væri vandasamt verk að segja börnum fréttir á stuttum tíma. Davíð segir að vissulega geti verið erfitt að skrifa fréttir á skömmum tíma og gæta þess „að allt sé svo satt og rétt,“ án þess að tekinn sé „stór sveigur fram hjá hvoru tveggja.“ Og bætti við að það geri fréttastofa RÚV þó oft.

Ísgerður svarar Davíð og ítrekar að ekkert í fréttinni sé ósatt og að þau sem vinni að þáttunum geri það af heilindum. Þá efast hún um að Davíð hafi horft á fréttirnar. Í samtali við Fréttablaðið segir hún:

„Við höfum fjallað um mikið af fréttum sem fólki finnst óþægilegar. Mál sem eru erfið og flókin, sem er erfitt því við viljum ekki skilja krakka eftir með byrðar heimsins á herðum sér.“

Hún tekur fyrir að þættirnir geti reynst skaðlegir og mælir með að foreldrar horfi á þættina með börnum sínum til að geta útskýrt fyrir þeim þegar fjallað er um alvarlegar fréttir.

Hér má lesa viðtalið við Ísgerði í heild sinni.

Nýjast