Inga sæland: „mér verður ómótt“ [...] „mælirinn er fullur“

„Sjávarútvegurinn stendur mér nærri. Ég er fædd og uppalin í sjávarútvegsbænum Ólafsfirði, komin af fólki sem lifði af sjósókn og því sem hafið gaf. Ég þekki lífið í sjávarplássunum – það er að segja lífið eins og það var.“

Á þessum orðum hefur Inga Sæland, formaður flokks fólksins pistil sinn „Vindum ofan af kvótakerfinu“ sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

„Mannlífið í þessum byggðum hefur breyst mikið síðustu áratugum. Fólki hefur fækkað, atvinnulífið er orðið fábreytnara, hafnirnar eru bara svipur hjá sjón. Æskubærinn minn Ólafsfjörður er gott dæmi um það. Fólki er meinað að bjarga sér með nýtingu þeirrar auðlindar sem varð til þess að byggðirnar byggðust upp og blómstruðu,“ segir Inga.

Hún segir alþýðuna í sjávarbyggðum landsins hafa fært gríðarlegar fórnir fyrir hugmyndafræði núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis; tekjuhrun, færri atvinnutækifæri, eignatap.

„Svona blóðtaka og margt fleira svo þeir sem á hverjum tíma taka þátt í kvótahringekjunni gætu „hagrætt.“ Orðið ofsaríkir með einkarétti sínum á að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Þessir aðilar deila og drottna. Þeir hika ekki við að spila með fjöregg fólks og skilja eftir sviðna jörð, nú síðast Grímsey,“ segir hún og bætir við: „Samherjaveldið hefur stundað meint arðrán á fátækri Afríkuþjóð. Mér verður ómótt.“

Fyrir fáum áratugum var Ísland þróunarland sem barðist fyrir sjálfstæði og yfirráðum á eigin auðlindum segir Inga og veltir því fyrir sér hvernig Íslendingum myndi líða ef hingað hefðu komið erlendir aðilar og ryksugað upp allan arð okkar dýrmætustu auðlinda eftir 200 sjómílna sigur árið 1975 á meðan íbúar landsins hefðu búið við örbirgð í hreysum.

„Kári Stefánsson bendir í grein sinni „Landráð?“ á maðk í mysunni varðandi verðmyndun á afla. Svo les ég að útgerðarrisinn Brim hyggist leita leiða til að hleypa útlendum fjárfestingum að fyrirtækinu og skrá það í norsku Kauphöllina. Forstjóri Brims talar eins og þetta sé einkamál fyrirtækisins en varði ekki þjóðina. Mælirinn er fullur,“ segir Inga.

Hún segir fyrrverandi formann Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson hafa verið góðan þingmann sem barðist af heilindum fyrir hag byggðanna.

„Hann mælti 2008 fyrir áhugaverðu frumvarpi. Það hefði heimilað fólki með tilskilin réttindi að stunda handfæraveiðar með ákveðnum skilyrðum 1. apríl til 1. október ár hvert og kæmu þær veiðar ekki til kvóta. Það er mikil synd að þetta var ekki samþykkt. Svona aðgerðir eru skref í rétta átt við að vinda ofan af kvótakerfinu,“ segir Inga.

Þá segir hún að vitanlega þurfi þó að gera miklu meiri breytingar á tilhögun fiskveiða hérlendis. Auðlindaákvæði í stjórnarskrána og tryggingu fyrir því að þjóðin fái fullt gjald fyrir nýtingu fiskimiðanna.

„Herða verður á því að reglur um eignarhald séu virtar og skoða öll krosseignatengsl. Við í Flokki fólksins skerum upp herör gegn kvótakerfinu. Stokkum spilin upp á nýtt og færum fólkinu í byggðunum nýtingarréttinn á ný. Við viljum kvótann heim.“