Icesave

Með tímanum gleymist margt - og flest verður að minnsta kosti óljóst. Þetta á við um mikilvæga stórviðburði eins og aðra, og meðal þeirra er endalyktir Icesave-málsins alræmda.

Þrotabú Landsbankans greiddi sjálft alla Icesave-skuldina, alls um 1.328. ma. kr. Þrotabúið greiddi skuldina með sex greiðslum, frá 2. des. 2011 til 11. jan. 2016.

Um Icesave voru tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, 6. mars 2010 og 9. apríl 2011. Fyrir lá við fyrri atkvæðagreiðsluna að um 90 % skuldarinnar höfðu þá þegar verið innheimt. Þá mátti sjá að svonefnd eignagæði Landsbankans væru slík að þrotabúið gæti greitt að fullu.

Almenningur var einhuga um að vísa á bug hugmyndum um ábyrgð íslenska ríkisins á málinu. En þrátt fyrir skýrar niðurstöður þjóðaratkvæðis tvisvar fór ríkisstjórn Íslands með málið að öllu leyti, með aðstoð sérfræðinga, alveg til loka.

Óánægja var með vaxtaákvæði í fyrstu samningsfrumvörpum um endurgreiðslur Icesave. Reyndin varð sú að eignagæði og innheimtur tryggðu að endurgreiðslur gengu svo fljótt og hratt að ekki kom til þessa mikla vaxtakostnaðar.

Þrátt fyrir niðurstöður þjóðaratkvæðis tvisvar lét ríkisstjórn Sigmundar Gunnlaugssonar greiða sérstaklega 20 ma. kr. upp í kostnaðinn, auk um 55 ma. kr. upp í gengismun í lokagreiðslunni.

Dómur EFTA-dómstólsins féll 28. jan. 2013. Með dóminum var kröfum um ríkisábyrgð Íslands hafnað. En rétturinn lagði allt önnur rök til grundvallar en þau sem Íslendingar höfðu lagt áherslu á. Miklu varðar í dómsorði að algert hrun fjármálakerfisins hafði þegar orðið þegar umdeildar ákvarðanir Íslendinga voru teknar. Og viðurkennt var að miðað við ríkjandi aðstæður var ekki um mismunun eftir þjóðerni að ræða í þeim ákvörðunum.

Um Icesave hafa fallið mörg hörð orð. Málið þjappaði Íslendingum saman á erfiðum tíma og herti vilja þjóðarinnar. Þegar frá líður er lærdómsríkt að rifja staðreyndir málsins upp.

                                                                       Höf. er fv. skólastjóri