Hvað þýðir nákvæmlega rauð viðvörun? samfélagið fer á hliðina

Í fyrsta sinn hefur verið gefin út rauð viðvörun og er hún í gildi fyrir Strandir og Norðurland-vestra. Theodór Freyr hjá Veðurstofu Íslands útskýrir í samtali við RÚV hver sé munurinn á appelsínugulri viðvörun og þeirri rauðu. Hann segir:

„Þetta er náttúrlega hæsta stigs viðvörun og þýðir í rauninni að samfélagsleg áhrif eru gríðarlega mikil sé horft til innviða, þjónustu og samgangna. Það má segja að þegar við erum komin yfir á rautt þá er samfélagið komið á hliðina hvað varðar þessa þætti.“

Hann bætir við að veðrið láti strax til sín taka í fyrramálið. Þá segir hann einnig:

 „Ofankoman, það er að segja slyddan eða snjókoman, verður það mikil hvað varðar samgöngur að það verður ekki hægt að halda einu eða neinu opnu. Og þá er alveg sama hvort við erum að tala um heiðar eða vegi í byggð. Þetta verður látlaust til langs tíma.“

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir:

 „Spáð er norðan ofsaveðri eða fárviðri (25 til 33 m/s) með mikilli snjókomu og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda, allt að 10 m. ölduhæð og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum.“