Hugrún Birta vissi ekki að kærastinn væri þekktur söngvari: „Ég vissi ekkert hver hann var - Fannst hann sætur strákur“

Hugrún Birta vissi ekki að kærastinn væri þekktur söngvari: „Ég vissi ekkert hver hann var - Fannst hann sætur strákur“

Hugrún Birta Egilsdóttir var krýnd Miss Supranational í keppninni Miss Universe Iceland í september síðastliðnum. Fer hún því sem fulltrúi Íslands í keppnina sem haldin verður erlendis.

Í viðtali við DV sem birtist í nýjasta helgarblaði þeirra segist Hugrún hafa skráð sig í keppnina til þess að stækka tengslanet sitt og stíga út fyrir þægindar rammann.

„Það gekk frábærlega því ég hafði trú á mér allan tímann og vissi að ég var búin að standa mig vel.“ Segir Hugrún í viðtalinu og með jákvæðu hugarfari endaði hún með kórónu á höfðinu.

Hugrún sem er yngst fjögurra systkina hefur gengið í gegnum margt og minnist hún þess sérstaklega að hafa setið í strætó með systkinum sínum með mat frá mæðrastyrksnefnd í fanginu eftir skilnað foreldra hennar.

„Við fengum ekkert alltaf heitan mat á kvöldin en mamma reyndi eins og hún gat að gefa okkur eins gott líf og henni frekast var unnt.“ Segir Hugrún og greinir hún einnig frá því að í kjölfar skilnaðarins hafi fjölskyldan hafa ítrekað þurft að flytja.

„Ég var lögð í ljótt einelti sem markaði unglingsárin og mína sjálfsmynd.“

Vegna mikils eineltis og stríðni var Hugrún brotin á sál og líkama en faðir hennar hjálpaði henni að byggja upp sjálfstraust sitt. Ákvað hún að fyrirgefa gerendum sínum sem lögðu hana í einelti og segir hún það hafa verið hreinsandi.

„Ég setti stöðugt upp einhvern front sem var ekki ég en þegar ég lærði að sleppa tökunum á þessari áráttu, að reyna stöðugt að vera einhver annar en ég sjálf, fór mér loksins að líða betur.“

Viðurkennir Hugrún að pressan og kröfurnar á konur séu oft á tíðum óraunhæfar. Henni þyki keppnin Miss Universe Iceland flott vegna þess að þar megi koma fram konur af öllum gerðum og stærðum.

Kærasti Hugrúnar er tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti sem lang flestir Íslendingar kannast við eftir að plata hans Dýrð í dauðaþögn kom út árið 2012. Þegar Hugrún kynntist honum hafði hún ekki hugmynd um að hann væri þekktur tónlistarmaður.

Mynd: Instagram/hugrunegils / Hugrún og Ásgeir Trausti

„Ég vissi ekkert hver hann var, en ég sá mynd af honum með gítar á prófílnum sínum og fannst hann sætur strákur.“

Parið kynntist fyrir tveimur árum og komst Hugrún að því að hann væri þekktur þegar hún fletti honum upp á netinu.

„Ég sé hann samt ekki sem tónlistarmann heldur bara sem Ásgeir Trausta, kærastann minn.“

Keppnin sem Hugrún tekur þátt í þann 6. desember verður haldin í Póllandi. Segist hún vera farin að undirbúa sig en kjóllinn sé ekki enn fundinn.

„Þetta verður þó allt öðruvísi upplifun en hér heima þar sem allir þekkja alla og við urðum mjög góðar vinkonur. Þarna er þetta allt mun stærra. Þarna mun líka fara fram hæfileikakeppni sem verður áhugavert að taka þátt í.“ Segist Hugrún ekki ætla að breyta sjálfri sér neitt fyrir keppnina og lítur hún á þátttökuna líkt og um atvinnuviðtal sé að ræða. 

Nýjast