Hrókurinn í stórræðum - Hátíðir í þremur bæjum á Grænlandi beggja vegna jökulsins

Hrókurinn í stórræðum - Hátíðir í þremur bæjum á Grænlandi beggja vegna jökulsins

Hrafn og grænlenski skákmeistarinn Steffen Lynge
Hrafn og grænlenski skákmeistarinn Steffen Lynge

Skákfélagið Hrókurinn stendur fyrir mikilli skák- og sirkus hátíð í Kullorsuaq, sem er 450 manna bær á samnefndri eyju við vesturströnd Grænlands, dagana 11. - 16. ágúst. Kullorsuaq, sem er á 74. breiddargráðu, er eitt afskekktasta þorp Grænlands, og er þetta annað árið í röð sem Hrókurinn heldur hátíð þar í samvinnu við heimamenn.

Leiðangursmenn Hróksins eru Hrafn Jökulsson, sem mun kenna skák, og sirkuslistamennirnir Axel Diego og Roberto Magro, sem verða með sýningar og sirkusskóla. Að aflokinni hátíðinni í Kullorsuaq verður boðið upp á fjöltefli og sirkussýningu í Upernavik, sem er liðlega 1000 manna bær.

Sirkuslistamennirnir Axel og Roberto verða með sirkusskóla á hátíð Hróksins í Kullorsuaq

Þeir Axel og Roberto voru með sirkusskóla í Kullorsuaq á vegum Hróksins í fyrra, jafnt fyrir börn sem fullorðna, og síðan hafa bæjarbúar komið reglulega saman til að æfa sig í sirkuslistum. Jafnframt var stofnað skákfélag í bænum, enda skildu liðsmenn Hróksins eftir bæði taflsett og sirkusbúnað og taflsett.

Um er að ræða fimmtu ferð Hróksins til Grænlands á þessu ári, en landnám skáklistar og vináttu á vegum félagsins hófst árið 2003.

„Við erum afar stolt og glöð yfir því að geta endurtekið leikinn frá því í fyrra í Kullorsuaq, en þá heppnaðist hátíðin frábærlega,“ segir Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins.

Heiðbjört Ingvarsdóttir nestar Hróksmenn með ótal böngsum í splunkunýjum prjónafötum

„Að baki er margra mánaða undirbúningur, og þar á kraftaverkakonan Birgitta Kamann Danielsen í Kullorsuaq stærstan hlut. Það er meira en að segja það, að skipuleggja svo veglega hátíð á svo afskekktum stað. Við mætum með gleðina að leiðarljósi. Það verður líka gaman að hitta börn og fullorðna í Upernavik, en þangað komum við Hróksliðar síðast í desember 2013.“

Polar Pelagic-hátíð í Tasiilaq: Til minningar um Gerdu Vilholm

Samtímis því sem Hrafn, Axel og Roberto verða á vesturströndinni munu Máni Hrafnsson og Joey Chan slá upp Polar Pelagic-hátíð í Tasiilaq, höfuðstað Austur-Grænlands, sem helguð er minningu Gerdu Vilholm. Þetta er þriðja minningarhátíðin í Tasiilaq um Gerdu, sem lést í ársbyrjun 2017. Hún var máttarstólpi mannlífsins í Tasiilaq og heiðursfélagi í Hróknum.

Máni Hrafnsson hefur tekið þátt í skáklandnámi Hróksins frá upphafi 2003

„Við minnumst einstakrar konu, sem var heiðursfélagi í Hróknum,“ segir Hrafn. „Gerda rak einu bókabúðina í Tasiilaq, sem hún kallaði Háskóla alheimsins. Þar var griðastaður barnanna í Tasiilaq, og þangað komu þau til að tefla og njóta lífsins. Gerdu er sárt saknað. En við minnumst hennar best með því að skapa gleðistundir fyrir börnin í bænum.“

Máni og Joey munu kenna skák í skólanum, efna til margvíslegra viðburða og myndlistarsamkeppni, auk þess að heimsækja heimili fyrir börn sem ekki geta dvalið hjá foreldrum sínum og fleiri staði. Þau munu jafnframt færa Amarngivat, sem er opið og ókeypis dagheimili fyrir ung börn, gnótt af fatnaði og gjöfum sem seld verða á vægu verði í þágu heimilins, sem nú berst í bökkum.

Gleðigjafinn Joey Chan er margreyndur Grænlandsfari og mun m.a. sjá um myndlistarkeppni barnanna í Tasiilaaq

„Austur-Grænlendingar standa okkur Íslendingum næst og við erum heppin að eiga slíka nágranna. Markmið Hróksins er ekki bara að útbreiða skák, heldur efla vináttu og samvinnu grannþjóðanna á sem allra flestum sviðum,“ segir Hrafn.

„Það er óhætt að segja að við stöndum í stórræðum nú í ágúst, og við þökkum af heilum hug öllum þeim óteljandi einstaklingum og fyrirtækjum sem leggja okkur lið. Með hverju ári sem líður verður okkur betur ljóst hve mikilvægt er að skapa gleðistundir á Grænlandi. Og aldrei skulum við gleyma því, að Íslendingar eru heppnasta þjóð í heimi þegar kemur að nágrönnum,“ segir Hrafn að lokum.

Nýjast