Hringbraut 5 ára í dag:

Sjónvarpsstöðin Hringbraut fagnar heldur betur tímamótum, en hún er fimm ára í dag - og hefur svo sannarlega markað spor sín í sjónvarpssögu landsmanna á þessum hálfa áratug.

Í fyrstu voru starfsmenn hennar aðeins þrír, stofnendurnir Guðmundur Örn Jóhannsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson, ásamt Sigurði K. Kolbeinssyni, en fljótlega bættust við upptökustjórar og tæknimenn, svo og fjöldi dagskrárgerðarmanna sem hefur komið og farið á þessum tíma. Og það er mikið vatn runnið til sjávar frá því upptökur og útsendingar stöðvarinnar hófust í pínulitlu myndveri niðri við Sundin blá, líklega því eina í sjónvarpssögunni sem hafði að geyma uppþvottavél sem fór stundum í gang á óheppilegum tíma, þar til stöðin fluttist í rýmra húsnæði út á Nes. Og nú er hún búin að hreiðra um sig í enn betra og hentugra húsnæði á fjórðu hæð Hafnartorgs, gegnt Arnarhóli, komin sumsé í miðborgina, hjarta höfuðstaðarins.

Og þættirnir og þáttaraðirnar eru óteljandi, en nefna má að fyrsti þátturinn sem sendur var út að kveldi 18. febrúar 2015, persónulegt viðtal Sigmundar Ernis við frú Vigdísi Finnbogadóttur í viðtalsþættinum Mannamál, er brátt í hópi 200 sambærilegra þátta undir sama heiti.

\"Þetta hefur verið hreint alveg ótrúlega skemmtilegt ævintýri í slagtogi við allt það gallerí af skapandi fólki sem rúmast getur á einum og sama stað,\" segir sjónvarpsstjórinn Sigmundur Ernir á þessum tímamótum. \"Og þetta hefur verið þrekvirki starfsmanna og eigenda í baráttu við óboðlegustu aðstæður á íslenskum vinnumarkaði þar sem ríkisstyrktur keppinautur þarf ekki einu sinni að fara að lögum frekar en hann vill,\" bætir hann við. Og hann viðurkennir að oft og tíðum hafi enginn aur verið í buddunni. \"Ég nefni sem dæmi að eitt sinn vorum við Björn Sigurðsson myndatökumaður að koma af öræfum eftir langt úthald við upptökur á náttúrulífsþætti - og þótt við vissum báðir þegar við áðum í greiðaskálanum Hálöndum sunnan jökla að við ættum ekki krónu fyrir mat, svangir báðir og vel það, lækkaði enn meira á okkur risið þegar við heyrðum frá starfsstúlku innandyra að við ættum heldur ekki efni á að fara á klósettið. Það kostaði sumsé 150 krónur á manninn - og við áttum ekki einu sinni fyrir öðrum okkar að pissa á staðnum.\"

En nú hefur sameiningin við útgáfufélagið Torg sem gefur út Fréttablaðið, frettabladid.is og Markaðinn skotið styrkari stoðum undir reksturinn, bendir sjónvarpsstjórinn á og bráðum bætast væntanlega miðlar útgáfufélags DV við sama fyrirtæki, samþykki Samkeppnisstofnun samrunann, svo ásýndin er önnur í vinnuumhverfi Hringbrautar. \"En þetta verður vonandi áfram ævintýri, ótrúlega skemmtilegt ævintýri, áhorfendum til heilla sem eru þakklátir fyrir allt okkar fjölbreytta íslenska efni sem hefur alltaf verið þeim að kostnaðarlausu,\" segir Sigmundur Ernir að lokum.

Og hann þarf ekki frekar en aðrir starfsmenn Hringbautar að kvarta yfir móttökunum. 62% landsmanna, 50 ára og eldri, horfa reglulega á stöðina í viku hverri - og 43% landsmanna, 30 ára og eldri, gera slíkt hið sama, samkvæmtt viðurkenndum mælingum, en útsendingar hennar ná nú til 99,4% landsmanna.