Hrafn hraunar yfir Svandísi: „Ekki vorkenni ég mér, en ég vorkenni þér“

Hrafn hraunar yfir Svandísi: „Ekki vorkenni ég mér, en ég vorkenni þér“

Fréttablaðið greindi frá því í gærmorgun að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefði sagt það erfitt að standa með spítalanum þegar ályktanir um slæma stöðu Landspítalans kæmu út á færibandi. Á fundi læknaráðs í fyrradag lýsti hún yfir vonbrigðum með orðanotkun lækna eftir að vísað var í ástandið á bráðamóttökunni sem „neyðarástandi“ og „skelfingarflækju“. Svandís vill ekki að læknar tali um neyðarástand, þrátt fyrir að staðan á spítölum hér á landi sé afar slæm og margir sem hafa gagnrýnt Svandísi og segja að heilbrigðiskerfið sé í molum.

Hrafn Jökulsson skáld og skákfrömuður er einn þeirra sem gagnrýnir Svandís harðlega. Hrafn deildi viðtali RÚV við Svandísi þar sem hún sagði það vera áskorun að standa með Landspítalanum. Hrafn spyr:

„Svandís Svavarsdóttir, er það ,,áskorun“ fyrir heilbrigðisráðherra að standa vörð um Landspítalann og bráðamóttökuna?!!“

Hrafn bætir við að aldrei hafi hann á sínum rithöfundarferli notað tvö upphrópunarmerki. Þá hefur hann sjálfur dvalið á bráðamóttökunni. Hrafn segir:

„Ég hef legið á þessari ömurlegu bráðamóttöku, á ganginum, hlýtt yfir af ágætu hjúkrunarfólki um sjúkrasögu innan um bláókunnugt fólk. Ég fékk líka að heyra sögurnar þeirra. Svo lá ég þarna áfram, í skjannabirtunni, sólarhringum saman, ásamt fleiri skjólstæðingum þínum, Svandís,“ segir Hrafn og segir að lokum:

„Ekki vorkenni ég mér, en ég vorkenni þér að standa vörð um þetta ömurlega ástand.“

Nýjast