Hörður hrósar efna­hags­legum árangri á ís­landi: „gerðist ekki allt af sjálfu sér“

Hörður Ægis­son, rit­stjóri Markaðarins, hælir efna­hags­legum árangri Ís­lands á seinasta ára­tugi í nýjum pistli sem birtist í Frétta­blaðinu í dag.

Hann bendir á að mikil ó­vissa hafi ráðið ríkjum í byrjun ára­tugarins. Hann telur að úr­lausn Ís­lendinga á Icesa­ve hafi verið góð, sér­stak­lega í saman­burði við það sem fyrir­hugað var.

„Efna­hags­á­standið var ekki gæfu­legt við upp­haf síðasta ára­tugar. Djúp­stæður efna­hags­sam­dráttur, mikið at­vinnu­leysi, raun­gengi krónunnar langt undir sögu­legu meðal­tali og vextir um tíu prósent. Mikil ó­vissa var um fram­haldið – ekki síst um er­lenda skulda­stöðu þjóðar­búsins – og fáir höfðu svör við því hvernig hægt yrði að af­nema fjár­magns­höft án þess að eiga hættu á annarri efna­hags­legri koll­steypu. Staðan var því svört. Hún hefði engu að síður getað orðið verri ef þá­verandi ríkis­stjórn hefði tekist það ætlunar­verk sitt að fá þjóðina til að gangast í á­byrgð fyrir lög­lausum Icesa­ve-kröfum gamla Lands­bankans. Þeir samningar, sem hefðu alltaf kostað okkur um 200 milljarða í gjald­eyri vegna vaxta­greiðslna til Breta og Hollendinga, hefðu gert það verk­efni að losa um höftin enn erfiðara en ella.

Al­menningi tókst hins vegar, með að­stoð for­setans, að hafa vit fyrir stjórn­völdum og forða þjóðinni frá niður­lægingu. Það var því vel til fundið að tíu árum eftir að tals­menn sam­takanna InD­efence gengu á fund Ólafs Ragnars Gríms­sonar og af­hentu honum undir­skriftir 56 þúsund Ís­lendinga sem skoruðu á hann að synja Icesa­ve-lögunum stað­festingar hafi nú­verandi for­seti sæmt Sigurð Hannes­son, sem var í for­svari sam­takanna og síðar einn helsti ráð­gjafi stjórn­valda við losun hafta, heiðurs­merki hinnar ís­lensku fálka­orðu, meðal annars fyrir að­gerðir undir merkjum InD­efence. Gras­rótar­starf InD­efence átti eftir að hafa víð­tækari á­hrif en að­eins á lyktir Icesa­ve-málsins. Í kjöl­farið varð sá skilningur al­mennt viður­kenndur að Ís­land þyrfti að nýta rétt sinn sem full­valda ríki til hins ýtrasta til að leysa með heild­stæðum hætti þann for­dæma­lausa greiðslu­jafnaðar­vanda sem þjóðar­búið stóð þá frammi fyrir.

Það varð úr. Að frum­kvæði Seðla­bankans voru slita­búin færð undir höftin í mars 2012 og þremur árum síðar voru kynntar sér­sniðnar lausnir, út­búnar af ís­lenskum ráð­gjöfum stjórn­valda, um af­nám hafta sem markaði þátta­skil í efna­hags­legri endur­reisn landsins. Hafta­á­ætlunin, sem hafði ekki nein laga­leg eftir­mál, var lykil­at­riði við að breyta á svip­stundu væntingum fjár­festa, fyrir­tækja og al­mennings gagn­vart fram­tíð hag­kerfisins. Efna­hags­legi á­vinningurinn fólst því ekki að­eins í þeim 500 milljarða eignum sem kröfu­hafar sam­þykktu að fram­selja endur­gjalds­laust til ríkisins.“

Hann bendir á að Ís­lendingar geti verið stoltir af árangrinum. Hann segir láns­hæfis­mat ríkisins vera fyrsta flokks og segir mikil­vægt að líta ekki á þetta sem sjálf­sagðan hlut:

„Ís­lendingar – stjórn­völd, at­vinnu­lífið og al­menningur – hafa náð ó­trú­legum efna­hags­legum árangri á liðnum ára­tug sem við megum vera stolt af. Láns­hæfis­mat ríkisins, sem hefur hækkað hraðar en dæmi eru um í fjár­mála­sögunni, er komið í A-flokk, vextir hafa aldrei verið lægri sam­hliða því að verð­bólga hefur haldist lág, skuldir ríkis­sjóðs hafa lækkað um 600 milljarða á fimm árum, er­lend fjár­festing hefur stór­aukist, Seðla­bankinn ræður yfir stórum ó­skuld­settum gjald­eyris­forða og er­lend staða þjóðar­búsins er á pari við stöndugustu ríki í Evrópu. Laun­þegar hafa ekki farið var­hluta af þessari þróun. Kaup­máttur launa hefur aukist um lið­lega 50 prósent sem er meira en þekkist í nokkru öðru ríki sem við berum okkur helst saman við.

Ó­hætt er að full­yrða að enginn ó­bilaður maður hefði spáð fyrir um það í árs­byrjun 2010 að þjóðar­búið stæði á jafn sterkum grunni tíu árum síðar. Það er hins vegar reyndin – og á þeim tíma­mótum er á­gætt að hafa það hug­fast að þetta gerðist ekki allt af sjálfu sér.“