Höllin loksins seld: Brynhildur keypti hús Smára – Sjáðu myndirnar

Hinn reyndi fjölmiðlamaður og foringi Sósíalistaflokksins, Gunnar Smári Egilsson og eiginkona hans, Alda Lóa Leifsdóttir settu glæsilegt einbýlishús við Fáfnisnes 3 á sölu árið 2017. Það var þá til sölu á 125 milljónir. Húsið sem byggt er árið 1969 þykir einstaklega fallegt en það er 244 fermetrar að stærð. Þess má geta að húsið var kosið það fegursta í höfuðborginni árið 1973.

Verðið var lækkað niður í 119 milljónir en fasteignamat árið 2020 er 108.888.000 krónur. Á Smartlandi kemur fram að Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona hafi keypt hús Gunnars Smára og Öldu Lóu.

Í sölulýsingu kemur fram að húsið hafi verið teiknað af Þorvaldi S. Þorvaldssyni arkitekt en það hefur verið endurnýjað mikið að innan. Húsið sem Gunnar Smára og Alda Lóa seldu er einkar glæsilegt. Í húsinu eru fimm svefnherbergi, tvær stofur og tvö baðherbergi.

Einnig er  rúmgóður tvöfaldur bílskúr við húsið og þá er fjörutíu fermetra geymslurými undir húsinu. Garðurinn er fallegur og gróinn.

Á vef Smartlands segir að Brynhildur og sambýlismaður hennar, Heimir Sverrisson leikmyndahönnuður hafi staðið í ströngu við að gera endurbætur á höllinni við Fáfnisnes.