Höfum ekki yrt hvert á annað

Inga Sædal, formaður Flokks fólksins er gestur Mannamáls:

Höfum ekki yrt hvert á annað

Við höfum ekki svo mikið sem yrt hvert á annað eftir að Klausturshneykslið komst í hámæli, segir Inga Sæland um samskipti sín við fyrrverandi liðsmenn Flokks fólksins, þá Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson sem starfa nú utan flokka á Alþingi eftir að hafa verið reknir úr Flokki fólksins.

Inga er gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamáli á Hringbraut í kvöld, en þar ræðir hún ekki aðeins eftirmál fyllerísins á Klaustri heldur fer hún ítarlega yfir dramatíska ævi sína, allt frá æskudögunum á Ólafsfirði, hvar mamma hennar ólst upp hjá tveimur mömmum eftir að afi hennar fórst í brimskaflinum í hafnarkjafti bæjarins, en sjálf missti svo Inga bróður sinn í sjóinn þegar þau voru bæði komin á fullorðinsár. Hún veiktist alvarlega sem barn sem leiddi til heilahimnubólgu og lögblindu; hún hefur aðeins 10 prósenta sjón og greinir ekki liti - ég á í rauninni heimsmetið í litblindu, bendir hún á, en kveðst ekki vera bitur vegna þessa; hún hafi vanist sínu hlutskipti frá barnsaldri - og í reynd hefði verið erfiðara fyrir hana að missa sjónina seinna, því þá hefði hún vitað hverju hún var að tapa.

Hún segir alla stjórnmálamenn sem vilja koma málum sínum áfram vera popúlista - og sjálf sé hún, já poppari, töffari og nagli sem sé komin með ágætasta skráp eftir atið í opinberu sviðsljósi.

Mannamál byrjar klukkan 20:00 í kvöld.

 

Nýjast