HETJUDÁÐIRNAR SEM ENGINN TALAR UM

Japlað á heimskunni sem aldrei fyrr - en eitt svolítið mikilvægt gleymist á meðan:

HETJUDÁÐIRNAR SEM ENGINN TALAR UM

Það reyndist fréttalegur hvalreki í gær þegar þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson gerði sig að fífli með ræðu sem hann flutti á þingi. Hann ræddi lokun landamæra Íslands og hvort snúa ætti flóttafólki við strax í Keflavík. Bar við umhyggju sinni gagnvart aumingja fólkinu eins og oft er gert þegar klæða á þröngsýnina í búning. Ásmundur talar beint inn í þjóðhverfuhjartað íslenska. Þótt hann hafi verið kallaður bæði rasisti og fáviti vegna ummæla sinna í gær veit hann sjálfur að fátt er líklegra fyrir menn lítilla afreka til að fá endurkjör en að ala á ótta við hið ókunna.

Ábyrgð þingmanna er mikil þegar kemur að umræðu um mannréttindi. Ásmundur féll sannarlega enn einu sinni á þingmannaprófi sínu í gær og fyrsta bylgja viðbragða þegar svona fréttir berast er almenn hneykslun. En af því að við erum fá og af því að Ásmundur er kannski vinur okkar á facebook eða af því að við þekkjum einhvern vel í fjölskyldunni hans, breytist réttlát reiði oft í meðvirkni með annarri bylgju viðbragða. Þá eru blaðamenn kannski búnir að hringja í Ásmund og talið berst að því að börnin hans hafi þurft að segja barnabörnunum hans að best sé að þau fari ekki á fréttasíðurnar því það sé verið að segja svo ljóta hluti um afa.

Hanna Birna tefldi börnum sínum óhikað fram sem skildi í umræðunni og gott ef ekki kostaði þær tilfinningar sínar á facebok þegar hún var komin í röklegt þrot og hafði orðið uppvís að ósanndindum í lekamálinu. Ásmundur kann þetta bragð líka eins og margir aðrir, að tefla fram fjölskylduhagsmunum og tilfinningum sinna nánustu, í smjörklípuskyni. Það er viðbjóðsleg orðræða. Þeir sem hafa mestu völdin hér á landi eru ábyrgir fyrir vondum skoðunum sínum, ummælum og athöfnum. Ábyrgir að mestu fyrir því sjálfir hvernig um þá er fjallað. Ef þingmenn skíta upp á bak og fjölmiðlar fjalla um eiga fjölmiðlar ekki sök á vanlíðan ættingja þingmannsins. Ásmundur sjálfur er gerandi í því máli og það er ekki eins og að skoðanir Ásmundar sem ítrekað hafa verið kallaðar rasískar séu að koma fram í fyrsta skipti núna. Maðurinn virðist hafa sérstaka andúð á útendingum og þá einkum múslimum. Alhæfir um þá eins og enginn sé morgundagurinn.


Á meðan allir helstu fjölmiðlar landsins birtu frétt um heimsku og þröngsýni þingmannsins Ásmundar Friðrikssonar, stóðu 90% Íslendinga sig vel við ýmsar erfiðar aðstæður. Í menntastofnunum landsins kveiktu framhaldsskólakennarar áhuga á bókmenntum eða stærðfræði þannig að breytti lífi nemenda. Í grunnskólum gripu skólaliðar inn í og komu með árvekni í veg fyrir einelti. Fjöldi vagnstjóra bauð brosandi góðan daginn og sýndi farþegum tillitssemi. Samt er bara fjallað um þennan eina sem annað hvort hemlaði of snöggt eða þann sem reiddist. Arkitekt teiknaði glæsilega byggingu á sama tíma og Ásmundur stóð í pontu og romsaði upp úr sér vitleysunni. Blaðamenn skrifuðu pistla sem fólu í sér tilraun til að bæta heiminn. Rafvirki vann kraftaverk með lögnum við erfiðar aðstæður. Pípulagningamaður losaði stíflu í heimahúsi sem bjargaði deginum hjá fjölskyldu. Læknir bjargaði mannslífi við erfiðar aðstæður, þurfti að nýta sér alla sína reynslu og menntun til að lítil stúlka ætti áfram mömmu. Hjúkrunarfræðingur gerði með alúð og fagmennsku líf langveiks sjúklings þess vert að lifa því, a.m.k. einn dag í viðbót. Forstjóri viðskiptafyrirtækis fann nýja leið til að stórbæta hags starfsfólksins. Stjórnandi snjómoksturstækis lagði sig í hættu við störf sín svo að aðrir kæmust leiðar sinnar. Lögfræðingur fletti upp dómi sem mun bjarga hag skjólstæðings hans. Verkamaður gróf skurð af slíkri natni í frosti og fimbulkulda að fjöldi fólks fær þjónustu sem ella hefði ekki orðið. Listamaður semur lag, málar mynd eða skrifar setningu í bók sem breytir sýn okkar á veröldina og gera jarðpuðið merkingarbærara. Sjómaður vinnur ötullega að galdeyrisöflun með óeigingjörnu starfi sínu á flughálu dekkinu og leiðsögumaður bjargar ferðamanni úr háska - án þess að nokkur viti af því.

Enginn fjallaði um þetta fólk í gær.

Á sama tíma og menn eins og Ásmundur fá alla athyglina eru íbúar veraldarinnar, jafnt innan sem utan landsteinanna, puðandi út um allt með það eitt í huga að gera sitt besta. Á meðan Ásmundur Friðriksson gerði sig kláran í að breyta sér í fórnarlamb eftir að hafa flutt einhverja verstu þingræðu síðari tíma, ræðu sem elur á mannhatri og aðgreiningu, ræddu aðrir þingmenn í sal Alþingis fangelsismál og refsingar. Þeir sem fylgdust með þeirri umræðu sáu ekki annað en að manngæskan skini út úr hverju orði og andliti þeirra sem létu sig málið varða. Eitt áttu þingmenn sameiginlegt, að vilja gera heiminn betri. Þótt einn þingmaður geri sig að fífli er ekki þar með sagt að allir þingmenn hér á landi séu fífl.


Á sama tíma er lítið fjallað um hvunndagshetjurnar. Hinar daglegu ósýnilegu hetjudáðir sem flest fólk vinnur í hljóði.

Það er til umhugsunar bæði fyrir fjölmiðla sem og almenning allan.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)

Nýjast