Hér kveður grandvar sómamaður: margir minnast helga

Helgi Selj­an, fyrr­ver­andi alþing­ismaður, lést á Land­spít­al­an­um í Foss­vogi 10. des­em­ber. Hann var 85 ára að aldri. Helgi var fædd­ur á Eskif­irði 15. janú­ar 1934.

Hann hóf feril sinn sem kennari og skólastjóri á Austfjörðum. Árið 1971 var hann kosinn á Alþingi fyrir Alþýðubanda­lagið. Sat hann á þingi í 16 ár, og var forseti efri deildar þingsins um tíma. Fjölmargir minnast þessa merka stjórnmálamanns sem síðar varð framkvæmdastjóri Öryrkja­banda­lags Íslands, til starfs­loka 2001. Er Helga lýst sem strangheiðarlegum mannvini sem hafði jákvæð áhrif á íslenskt samfélag.

Helgi Seljan yngri sem stýrir Kveik á RÚV birti mynd af afa sínum á Facebook og segir þar:

„Takk fyrir allt afi minn.“

Fjölmargir sem tengjast stjórnmálum og fjölmiðlum minnast Helga sem stjórnmálamanns sem hafi haft mikið og jákvæð áhrif á sitt samfélag. Egill Helgason sem stýrir Eyjunni sendir Helga Seljan yngri kveðju á Facebook-vegg hans:

„Helgi Seljan dvaldi eitt sinn í kattartungupakka hjá mér. Þá var ég lítill drengur, klippti út myndir af þingmönnum og hélt kosningar með því að draga myndirnar úr pakkanum.. Það var auðvelt að muna nafnið hans. Hann var flottur karl.“

Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sendir Helga Seljan yngri samúðarkveðjur:

„Hann afi þinn snerti við lífi svo margra og hafði jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Minningin lifir.“

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar skrifar:

„Pabbi, sem var Eskfirðingur, fannst mjög mikið til afa þíns koma og talaði alltaf um hann af mikilli lotningu.

Hann vitnaði oft til hans og það var t.d. umsvifalaust þaggað niður í okkur krökkunum þegar heyrðist í honum í útvarpi og sjónvarpi. Mér fannst ég því hálf þekkja hann.“

Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar lýsir Helga sem merkum og skemmtilegum manni. Þá segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands að Helgi hafi verið vandaður maður og hagmæltur. Erpur Eyvindarson tónlistarmaður segir einfaldlega: „Stórkostlegur maður“.

Illugi Jökulsson rithöfundur minnist Helga á Facebook-síðu sinni. Þar segir Illugi:

„Helga Seljan þingmanni kynntist ég því miður aldrei. Ég man þó að þegar ég byrjaði að fylgjast með íslenskri pólitík á táningsaldri, þá var ég alltaf svolítið hissa á honum, hvað hann væri að gera í pólitík. Því hann bar það svo augljóslega með sér hvað hann var grandvar sómamaður, í bestu merkingu þeirra orða, og með fullri virðingu fyrir hinum, þá lýsti það nú ekkert af þeim öllum. Sem blaðamaður átti ég örfáum sinnum orðastað við hann og það staðfesti bara það álit sem ég hafði myndað mér áður. Af því seinna kynntist ég sonarsyni hans og nafna, sem er líka sómamaður, þá leyfi ég mér að votta fjölskyldunni alla mína samúð. Þeirra huggun er auðvitað að vita að hér kveður góður maður.“

Útför Helga fer fram frá Grafar­vogs­kirkju föstu­dag­inn 20. des­em­ber klukk­an 13.