Helga vala: skammarlegt og sláandi

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, segir samanburðinn við önnur norræn lönd sláandi þegar kemur að því fjármagni sem sett sé í heilbrigðismál í samanburði við önnur lönd. Hún segir tölurnar skammarlega lágar.

Þetta kemur fram á vef RÚV. Samkvæmt Efnahags- og framfarastofnunin, OECD sem nýverið birti tölur yfir útgjöld aðildarríkja til heilbrigðismála ver Ísland 8,3 prósent af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála. Eru 21 ríki OECD sem verja hærra hlutfalli til málaflokksins en Ísland. Helga Vala segir:

 „Mér finnast þetta skammarlegar tölur fyrir okkur og ber ekki vott um mikla kænsku því það er mjög dýrt að reka ekki gott heilbrigðiskerfi. Og fjármálaráðherra var nokkuð skýr í fjárlagaumræðunni um að það væri eitthvað að í slíku kerfi sem tæki stöðugt meira við og var þá að tala um Landspítalann. Ég segi að það sé eitthvað að ríkisstjórn sem ver ekki nægilegum fjármunum í heilbrigðismál. Því það er mjög dýrt á endanum.“