Helga vala: „ákvæðið um vernd uppljóstrara fellt út“ - „tilviljun?“

Málefni uppljóstrara hafa verið í umræðu á Alþingi undanfarið og hefur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagt vera að vinna að frumvarpi til að vernda uppljóstrara. Umræðan hefur aukist eftir að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi rekstrarstjóri Samherja í Namibíu, steig fram í fréttaumfjöllun Kveiks og Stundarinnar um Samherjamálið svokallaða. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarnar, segir að ákvæði um vernd uppljóstrara hafi verið áður til staðar í lögum um Sérstakan Saksóknara. 

„Vissuð þið að í lögum um sérstakan saksóknara, sem sett var af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, var ákvæði um vernd uppljóstrara?“

Embætti sérstaks saksóknara var lagt niður í byrjun árs 2016 og embætti Héraðssaksóknara stofnað. Á þeim tíma var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benidiktsson fjármálaráðherra. Ólafur Þór Hauksson var skipaður sérstakur saksóknari árið 2009, en þegar það embætti var lagt niður var hann skipaður héraðssaksóknari. Við stofnun nýja embættisins var einnig lögum breytt þar sem hlutverk nýja embættisins myndi breytast. Helga Vala segir að við niðurfellingu embættis Sérstaks saksóknara hafi einnig ákvæði í lögum um vernd uppljóstrara verið fellt úr gildi. Þá spyr hún hvort sú breyting hafi verið tilviljun.

„Vissuð þið að þegar tekin var ákvörðun um að leggja niður embætti Sérstaks saksóknara í tíð ríkisstjórnar Sigmundar og Bjarna, og rannsókn efnahagsbrota og skattalagabrota færð undir nýtt embætti Héraðssaksóknara var ákvæðið um vernd uppljóstrara fellt út. Nei, kannski munduð þið það ekki en svona var það samt. Tilviljun?“