Heimavellir skipta um kúrs: hafa selt 259 íbúðir það sem af er ársins!

Arnar Gauti Reynisson, forstjóri Heimavalla, er gestur Jóns G. í kvöld og ræða þeir uppgjör þriðja ársfjórðungs sem og þá áherslubreytingu sem hefur orðið hjá félaginu. Horfið hefur verið frá hugmyndum um að stækka félagið og byggja nýjar íbúðir, eins og á Veðurstofureitnum. Þess í stað hafa Heimavellir lagað til í eignasafninu og selt 259 íbúðir á árinu og hafa kynnt sölu á 120 íbúðum til viðbótar á næstunni. Fyrirtækið var áður með íbúðir víða um land en núna hefur kúrsinn verið settur á höfuðborgarsvæðið og Ásbrú. Með þessu er félagið að minnka eignasafnið en í því eru yfir 1.700 íbúðir núna, en gera það á margan hátt sterkara. Gengi bréfa í Heimavöllum hefur verið tiltölulega óbreytt síðastliðið ár og lónað í kringum 1,12 til 1,16.

Þátturinn Viðskipti með Jóni G. er á dagskrá kl. 20:30 í kvöld og á tveggja tíma fresti eftir það næsta sólarhringinn. Ennfremur er hægt að horfa á þáttinn í tímaflakki og eftir hádegi á morgun, fimmtudag, fer hann inn á heimasíðu Hringbrautar.