Braskaði forsætisráðherra með opinber embætti?

Ritstjóri Kvennablaðsins skrifar:

Meðal þess sem fram kemur á upptökunum frá fundi þingmanna á Klaustri þann 20. nóvember, er sá sameiginlegi skilningur Gunnars Braga Sveinssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að sem utanríkisráðherra hafi Gunnar Bragi keypt sér frið frá Vinstri-grænum til að skipa Geir H. Haarde í embætti sendiherra, með því að veita um leið Árna Þór Sigurðssyni, fyrrverandi þingmanni VG, annað slíkt embætti. Þá segist Gunnar hafa átt fund með Katrínu Jakobsdóttur til að tryggja þennan frið um málið. Þessi tilhögun hafi gengið upp og sendiherraveitingin farið fram hávaðalaust.

Þar talar fyrrverandi ráðherra fjálglega um fyrirkomulag sem almennt hefur talist að tíðkist, það er að helstu stjórnmálaflokkar landsins eigi viðskipti sín á milli um úthlutun embætta á við sendiherrastöður. Um það má til dæmis lesa í fréttaskýringu RÚV í kjölfarið, „Sendiherratign algengur bitlingur“. Um slíkt er þó sjaldan rætt berum orðum á opinberum vettvangi, enda virðast slík viðskipti skýrt dæmi um spillingu, annars vegar, og vísbending um sameiginlega hagsmuni og hagsmunabandalag hefðbundnu flokkanna, hins vegar.

Í ljósi þessa sendi Kvennablaðið, að morgni laugardagsins 1. desember, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fimm spurningar, með milligöngu upplýsingafulltrúa embættis hennar. Spurningarnar eru eftirfarandi:

1. Kannast forsætisráðherra við – getur hún staðfest eða neitað fullum fetum – að hafa átt fund eða samræðu af þeim toga sem Gunnar Bragi lýsir, við hann sem utanríkisráðherra eða einhvern erindreka sömu hagsmuna, og gert einhvers konar samkomulag, formlegt eða óformlegt, berum orðum eða í hálfkveðnum vísum, um að liðsmenn VG myndu takmarka gagnrýni á skipan Geirs H. Haarde í embætti sendiherra, gegn því að önnur slík staða yrði veitt stjórnmálamanni úr röðum VG?

2. Ef forsætisráðherra átti engan slíkan fund eða samskipti, var hún meðvituð um einhver sambærileg samskipti einhverra úr röðum VG við þáverandi utanríkisráðherra eða aðra erindreka sömu hagsmuna, um úthlutun embættisins til Geirs H. Haarde? Hafi svo verið, reyndi hún á þeim tíma að grípa inn í og stöðva viðskiptin? Með hvaða hætti?

3. Ef forsætisráðherra átti annað hvort beina aðkomu sjálf að ofangreindum viðskiptum þeim sem Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson halda báðir fram, á upptöku, að hafi átt sér stað, eða vissi af slíkum viðskiptum á vegum flokksmanna sinna og reyndi ekki að stöðva þau, hvernig rökstyður hún þátttöku flokksins í þessu fyrirkomulagi? Lítur hún sjálf á slík viðskipti með opinber embætti sem spillingu? Ef ekki, hvaða augum lítur hún viðskiptin þá og hvernig myndi hún kjósa að lýsa þeim?

4. Getur forsætisráðherra staðfest eða synjað að hafa tekið þátt í, og/eða vitað af án þess að stöðva, önnur samskipti af skyldum toga, milli flokka, um embættisveitingar, í utanríkisþjónustunni annars vegar, á öðrum sviðum hins vegar, á því tímabili sem hún hefur tekið þátt í stjórnmálum?

5. Að því gefnu að rétt sé með farið í öðru eða báðum tilfellum: að fyrrverandi ráðherrarnir tveir á hljóðupptökunni fari rétt með, að viðskipti milli flokka hafi átt sér stað um veitingu sendiherrastöðu til Geirs H. Haarde og Árna Þór Sigurðssonar; og/eða að fréttamaður RÚV fari rétt með um hversu algeng slík viðskipti eru, sér forsætisráðherra þá fyrir sér að grípa til aðgerða til að stöðva slík viðskipti héðan í frá? Þá hvaða aðgerða? Ef ekki, þá á hvaða forsendum?

Fram til þessa hefur ráðuneytið að jafnaði brugðist við spurningum Kvennablaðsins með einhverjum hætti innan sjö daga eftir að þær berast, í samræmi við upplýsingalög. Blaðið segist því vænta svara ráðuneytisins fyrir lok næstu viku.