Harði hægrimaðurinn sem féll fyrir borgarstjóra vinstra manna

Það kitlar heldur betur forvitnina að horfa og hlusta á kaupmanninn Bolla Kristinsson, gjarnan kenndan við 17, vaða á súðum í Mannamáli kvöldsins, en þar afhjúpar hann nokkur leyndarmála sinna frá farsælli, viðburðaríkri og umtalaðri athafnaævi.

Furðulegast er kannski að hlusta á hann lýsa því þegar hann gerðist einn helsti ráðgjafi Reykjavíkurlistans, eftir afhroð íhaldsins í borginni, en þá hringdi borgarstjórinn Ingibjörg Sólrún í hann og vildi fá hann, harðsvíraðan hægrimanninn, til að gefa sér ráð um uppbyggingu miðborgarinnar; hún vildi ekki hafa eintóma já-menn í kringum sig og því þætti henni reyndur kaupmaður af Laugaveginum áhugaverður samstarfsmaður, þótt hann hefði allt aðrar stjórnmálaskoðanir en nýbakaður borgarstjórinn. En Bolli skellti á hana í fyrstu, en hún hringdi aftur - og hann lét til leiðast - og féll svo fyrir töfrum þessarar snjöllu konu, varð svo að segja ástfanginn af henni, viðurkennir hann fúslega. en þar með byrjaði margra ára samvinna þerra og andlagið sjálft; viðspyrnan í miðborginni og uppbyggingin þar.

Hann gefur ekki mikið fyrir núverandi borgarstjóra, segir hann vera andstæðu Ingibjargar Sólrúnar og tönnlast á því raunar allt viðtalið á enda, sem er á köflum stórfurðulegt samtal hans og Sigmundar Ernis. Og það er allt látið flakka, um ást hans á Svövu og skilnaðinn við hana, skilnaðinn við flokkinn og nýtt líf með nýrri konu á suðlægum slóðum.

Þátturinn hefst klukkan 20:00 í kvöld.