Haraldur vill gerast ráðgjafi áslaugar: hvert umdeilda málið á fætur öðru

Haraldur Johannessen hættir sem ríkislögreglustjóri um áramót. Nú í morgun óskaði hann eftir við Áslaugu Örn Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra að láta af embætti frá næstu áramótum. Þá hefur Haraldur óskað eftir að gerast ráðgjafi ráðherra á sviði löggæslumála eftir að hann lætur af störfum. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Í bréfi sem hann sendi starfsmönnum embættisins í morgun kveðst hann stíga sáttur frá borði eftir að hafa gegnt starfinu í 22 ár. Sagðist hann vilja stíga frá borði og hleypa nýju fólki að nú þegar boðaðar hefðu verið breytingar á yfirstjórn lögreglu.

Síðustu mánuði hefur hvert umdeilda málið á fætur öðru tengt Haraldi ratað í fréttir. Í september birtist viðtal við Harald í Morgunblaðinu sem varð til þess að lögreglustjórar landsins lýstu yfir að Haraldur nyti ekki trausts þeirra.

Þá fannst lögregluembættum dýrt að leigja bíla, mótorhjól og fatnað af ríkislögreglustjóra sem sá um að kaupa þetta inn en leigja svo áfram til embættanna. Haraldur var svo sakaður um einelti í garð sérsveitarmanna og formaður Lögreglufélags Reykjavíkur lét svo hafa eftir sér að hann hefði ítrekað kvartað undan Haraldi og sakað hann um ógnar- og óttastjórn í starfi.

Í sumar varð Har­aldur Johannessen upp­vís að því að nota emb­ætti rík­is­lög­reglu­stjóra til að kvarta yfir bók og sjón­varps­þætti. Það gerði hann með því að senda bréf þann 2. mars 2018, með bréfsefni embættis ríkislögreglustjóra, til sagnfræðingsins og þáttastjórnandans Björns Jóns Braga­sonar vegna bókarinnar Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits?, en hún kom út árið 2016. Haraldur sendi einnig bréf á sjón­varps­manninn Sig­urðar Kol­beins­sonar vegna sjón­varps­þáttar um sama efni sem sýndur var árið 2017. Björn Jón hefur einnig sagt að Haraldur hafi hringt í sig persónulega og sagst vera að íhuga að stefna honum fyrir meiðyrði.